Andvari - 01.03.1968, Blaðsíða 108
106
SVERRIR KRISTJÁNSSON
ANDVARI
á íslandi um langt skeið, er leggur sig fram unr að leysa hina langvinnu deilu
Dana og íslendinga og reynir að vera báðum trúr. Það var erfitt verk og van-
þakklátt. Á því leikur enginn vafi, að Hilmar Finsen hefur átt þátt í tilorðn-
ingu frumvarpsins, sem lagt var fyrir alþingi 1867 um stjórnarskipan handa
íslandi, því að stjórnin kvaddi hann til Kaupmannahafnar síðla vetrar 1867
til ráðuneytis.
I bréfi frá 4. apríl 1867 til Maurers segir Jón Sigurðsson honum þær fréttir,
að danska stjómin muni gera alþingi nýtt tilboð að sumri, og er nú með öllu
sannfærður um, að rétt hafi verið að hafna fjármálafrumvarpinu 1865. Síðan
dregur hann saman kröfur sínar í fáum orðum og segir: Eg fyrir mitt leyti
vil heimta: 1) sæmilega skaðabót fyrir eignir landsins og verzlunarkúgun. —
2) að hvað við fáum verði eign landsins, en ekki árleg veiting. — 3) stjórnar-
málið allt í heild sinni lagt fram ásamt fjármálinu, því eg vil því aðeins slá
af peningakröfum, að politiskar kröfur fáist. — 4) þjóðfund, eða með öðrurn
orðum frjálst og fullkomið atkvæði alþingis eða íslenzkra fulltrúa, svo að við
vitum víst, að ekkert verði ákveðið, nema alþing eða þjóðfundur samþykki, en
engin oktroi af hendi Dana. — Með þessa stefnuskrá í huga hélt Jón Sigurðsson
til þings sumarið 1867.
Frumvarp stjórnarinnar var í VIII köflum og 67 greinum, auk ákvarðana
um stundarsakir í sex greinum. Efnislega skiptist frumvarpið í tvo meginbálka:
annars vegar tengslin milli íslands og Danmerkurríkis og sameiginleg mál,
sem af þeim tengslum spretta, hins vegar sérmál íslands og tilhögun þeirra.
Við þetta bætast svo að sjálfsögðu lögbundin stjórnarskrárleg réttindi þegnanna.
í 1. grein er því í upphafi lýst yfir, að Island er óaðskiljanlegur hluti Dan-
merkurríkis. Undir þá grein falla einnig ákvæði dönsku stjórnarskrárinnar um
konungdóminn. Samkvæmt 2. grein skal konungur áður en hann tekur við
stjóm heita með skriflegum eiði að halda óbrigðanlega hin sérstöku stjórnskip-
unarlög íslands. Þriðja grein mælir svo fyrir, að sameiginleg mál með íslandi
og Danmörku eru auk konungdóms viðskipti ríkisins við önnur lönd, vörn ríkis-
ins á landi og sjó, ríkisráðið, réttindi innborinna manna, myntslátta, ríkisskuldir,
ríkiseignir og póstgöngur milli Danmerkur og Islands. Um þessi mál hefur
ísland löggjöf og stjórn sarnan við konungsríkið.
Fyrst um sinn skal ísland ekki gjalda neitt til sameiginlegra mála og tekur
þá heldur engan þátt í löggjöf um þessi málefni. Ef Island réttir svo við, að
það geti goldið til ríkisþarfa, skal konungur kveða á um, hversu mikið tillagið
skuli vera, og skal þá ákvarðað með lögum, hvernig ísland eigi eftirleiðis að
taka þátt í löggjöf og stjóm sameiginlegu málanna. Fimmta grein kveður á
um, að í öllum öðrum málum, sem Island snerta, en þeim, sem fyrr voru talin,