Uppeldi og menntun - 01.07.2012, Blaðsíða 20
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 21(2) 201220
SJÁlfStJÓrnUn barna og Ungmenna
Sjálfstjórnun barna og ungmenna² er ört vaxandi fræðasvið og hefur rannsóknum á
því vaxið ásmegin undanfarna áratugi, ekki síst það sem af er þessari öld. Niður-
stöður rannsókna sem leiða í ljós tengsl á milli sjálfstjórnunar barna og ungmenna og
ýmiss æskilegs þroska, svo sem góðs námsgengis, hafa nýlega haft áhrif á skólastarf
og stefnumótun í Bandaríkjunum og Evrópu (Leseman, 2009; McClelland, Ponitz,
Messersmith og Tominey, 2010). Rannsóknir á sjálfstjórnun eru stutt á veg komnar á
Íslandi og hefur umræða um þessa færni verið af skornum skammti meðal almenn-
ings og fræðafólks. Algengt er að umfjöllun hér á landi um sjálfstjórnun snúi að vanda
fólks við að beina og halda athygli (til dæmis vegna athyglisbrests), sem er eitt þeirra
vitrænu ferla sem falla undir sjálfstjórnun. Í þessari grein verður ekki fjallað um erfið-
leika tengda sjálfstjórnun, heldur er sjónum beint að því hvernig hún þróast meðal
flestra barna og ungmenna og hvaða máli hún skiptir þegar þau takast á við verkefni
hversdagsins, svo sem samskipti og skólanám.
Fyrsti hluti greinarinnar fjallar um hugtakið sjálfstjórnun. Því næst er breytingum
á slíkri færni í barnæsku og á unglingsárum lýst og þeirri þýðingu sem hún hefur
fyrir þroska barna og ungmenna. Einnig verður fjallað um það hvernig stuðla má að
sjálfstjórnun með markvissu starfi í leik- og grunnskólum. Þá er gerð grein fyrir stöðu
þekkingar á Íslandi með umfjöllun um þær íslensku rannsóknir sem gerðar hafa verið
á þessu fræðasviði. Að lokum er fjallað um þýðingu greinarinnar fyrir áframhaldandi
rannsóknir og starf á vettvangi á Íslandi.
Í starfi mínu sem háskólakennari hef ég oft furðað mig á því hversu lítil umræða
hefur verið um sjálfstjórnun barna og ungmenna meðal háskólafólks, starfsfólks á
vettvangi og stefnumótandi aðila en ég hef einnig fundið fyrir miklum áhuga nem-
enda minna, samrannsakenda og starfsfólks á vettvangi á þessari mikilvægu færni.
Í kjölfar umræðu um sjálfstjórnun er iðulega kallað eftir frekari upplýsingum um
þetta efni. Það er von mín að þessi grein auki skilning lesenda á þessari mikilvægu
færni, því yfirgripsmikla fræðasviði og rannsóknum sem það byggist á og efli áhuga á
að stuðla markvisst að sjálfstjórnun í starfi með börnum og ungmennum.
sjálfstjórnun: fræðilEgur grunnur og
skilgrEiningAr
Rekja má umfjöllun um stjórn mannsins á eigin gjörðum allt til forngrískra heimspek-
inga, svo sem hugmynda Aristótelesar um sjálfsaga (e. self-control) og mismunandi
dyggðir sem liggja að baki hegðun fólks (Boekaerts, Pintrich og Zeidner, 2000). Frá
því sálfræði varð til sem vísindagrein hafa fræðimenn innan hennar fjallað um ferli
sem falla undir hugtakið sjálfstjórnun, samanber umfjöllun Williams James (1890) um
stjórnun einstaklingsins á eigin tilfinningum. En líkt og ráða má af umfjölluninni sem
fer hér á eftir hefur þetta fræðasvið ekki orðið til í núverandi mynd fyrr en á síðustu
áratugum og eru nýlegar rannsóknir á sjálfstjórnun sprottnar af margs konar vísinda-
greinum og rannsóknarhefðum. Því er ómögulegt að rekja sögu rannsókna á þessu
sviði í stuttu máli en þó má telja víst að vaxandi áhuga fræðimanna á sjálfstjórnun
megi meðal annars rekja til breytinga sem urðu á áherslum innan sálfræðinnar á síðustu