Uppeldi og menntun - 01.07.2012, Blaðsíða 21
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 21(2) 2012 21
S t e i n U n n g eS tS d Ót t i r
öld. Á fyrri hluta aldarinnar voru rannsóknir undir sterkum áhrifum frá námskenn-
ingum og sneru þær fyrst og fremst að sambandi áreitis og hegðunar. Þær miðuðu
að því að skýra hlut umhverfisins í að móta hegðun mannsins án tilvísunar í hugsun
mannsins eða önnur innri, ósjáanleg ferli. Á seinni hluta aldarinnar urðu breytingar
á rannsóknum í sálfræði, meðal annars þegar tölvur komu til sögunnar. Þá var farið
að líkja huga mannsins við tölvu sem vinnur á virkan hátt úr upplýsingum og mótar
viðbrögð við þeim og í kjölfarið fjölluðu rannsóknir í auknum mæli um hugræn ferli
(Bandura, 2001). Með slíkum rannsóknum var því hafnað að vísindi gætu ekki fjallað
um hlutdeild einstaklingsins í að móta sinn eigin þroska. Rannsóknir fræðimannsins
Walters Mischel voru meðal fyrstu rannsókna sem vöktu verulega athygli fræðasam-
félagsins á sjálfstjórnun barna og þeirri þýðingu sem hún hefur fyrir þroska þeirra
eins og fjallað verður um hér á eftir.
Af nýlegum rannsóknum og fræðilegri umfjöllun er ljóst að ekki ríkir full sátt um
það hvernig skuli skilgreina hugtakið sjálfstjórnun. Það skýrist líklega af því að rann-
sóknir á því falla undir ýmsar fræðigreinar, allt frá taugasálfræði til uppeldisfræði. Því
fellur margs konar færni undir þetta hugtak og hugtaknotkun er enn í mótun eins og
algengt er þegar um nýleg rannsóknarsvið er að ræða (McClelland o.fl., 2010; Pintrich,
2000). Þótt til séu margar skilgreiningar á hugtakinu sjálfstjórnun ríkir nokkur sátt um
að það vísi til yfirgripsmikillar færni. Sem dæmi skilgreinir Karoly (1983) sjálfstjórnun
sem getu fólks til að stjórna hugsunum og tilfinningum og samhæfa þær með það fyrir
augum að ná markmiðum sem það hefur sett sér til lengri eða skemmri tíma. Í skil-
greiningum á hugtakinu er einnig algengt að lögð sé áhersla á að undir það falli fyrst
og fremst meðvituð eða markmiðsbundin hugsun og hegðun (sjá til dæmis Steinunni
Gestsdóttur og Lerner, 2008; Quinn og Fromme, 2010). Einnig er algengt að skilgrein-
ingar á sjálfstjórnun vísi til getu fólks til að leggja mat á eigin hegðun og sýna sveigjan-
leika í stjórnun, þ.e. eftir því sem fólk á auðveldara með að breyta hugsun og hegðun
eftir því hvaða áhrif hegðun þeirra hefur, þeim mun meiri sjálfstjórnun telst það hafa
(sjá til dæmis Baumeister, Schmeichel og Vohs, 2007; Demetriou, 2000). Sem dæmi má
nefna barn sem reynir nýja aðferð við að leysa reikningsdæmi sem illa gengur að leysa
með upphaflegri aðferð og ungling sem leitar ráða hjá öðrum um það hvernig hann
geti leyst ágreining við vin sem hann ræður ekki fram úr upp á eigin spýtur. Hér eru
barnið og unglingurinn að stefna að markmiði (leysa reikningsdæmi og lynda við vin
sinn) og bregðast við þegar illa gengur að ná því. Með þessum hætti gerir sjálfstjórnun
fólki kleift að bregðast við þeim margvíslegu kröfum sem það stendur frammi fyrir á
degi hverjum og haga sér eftir því hvaða markmiði það vill ná fremur en að stjórnast
af ósjálfráðum viðbrögðum við þeim aðstæðum sem það er í hverju sinni. Slík við-
brögð eru eðlileg, svo sem að gefast upp við að leysa erfitt reikningsdæmi eða rífast
við vin sem er ósanngjarn, og sú hegðun getur leitt til þess að viðkomandi losnar
undan erfiðum aðstæðum til skamms tíma. Hins vegar er líklegt að hegðunin sem
valin er fram yfir þessi fyrstu viðbrögð eigi eftir að koma einstaklingnum betur þegar
til lengri tíma er litið, til dæmis með því að auka þekkingu barnsins á stærðfræði og
viðhalda vinskap unga mannsins þrátt fyrir lítils háttar ágreining.
Töluverður fjöldi rannsókna hefur fjallað um sjálfsaga, þ.e. getu fólks til að halda
aftur af löngunum sínum, til dæmis í mat eða kynlíf. Þær rannsóknir beinast þannig