Uppeldi og menntun - 01.07.2012, Blaðsíða 167
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 21(2) 2012 167
k r i S t JÁ n Þ Ó r m ag n úS So n
(Metcalf, Henley, og Wilkin, 2012), þó íslensk rannsókn gefi hugsanlega jákvæð fyrir-
heit um mögulega útfærslu slíkra aðgerða í grunnskólum hér á landi (Kristján Þór
Magnússon, Ingvar Sigurgeirsson, Þórarinn Sveinsson og Erlingur Jóhannsson, 2011).
hEilbrigði og VElfErð
Í nýjum aðalnámskrám allra skólastiga frá 2011 (Mennta- og menningarmálaráðu-
neytið, 2012a; 2012b; 2012c) er einn grunnþáttur menntunar tilgreindur sem heilbrigði
og velferð. Ég tel afar brýnt að skólarnir nýti sér þá þekkingu sem skapast hefur á
mikilvægi hreyfingar og tengslum hennar við heilsu og velferð til að styrkja almennt
skólastarf. Í ljósi þess að erfitt er að finna áhrifaríkari hegðun en hreyfingu til aukinnar
heilsu og velferðar er auðvelt að færa fyrir því sterk rök að hreyfingu ætti að flétta
enn betur inn í hið almenna skólastarf og gera hana enn sjálfsagðari þátt í daglegu lífi
barna, unglinga og ungs fólks en nú er. Það skal áréttað að hér er ekki eingöngu átt
við skipulagða þjálfun, heldur að fjölbreytt hreyfing af mismunandi ákefð og tegund
sé einfaldlega mikilvægur þáttur í námi. Að útivera sé eðlilegur og mikilvægur þáttur
náms. Að það sé leikur að læra.
Það er mat undirritaðs að almenn hreyfing verði áberandi þáttur í lífi fleira fólks á
næstu áratugum ef vel er haldið á spöðunum. En til þess að svo megi verða er brýnt að
rannsóknir á sviðinu einbeiti sér að því að finna fleiri lausnir á því hvernig betur megi
stuðla að aukinni hreyfingu fólks og hvernig auðvelda megi fólki að stunda daglega
hreyfingu í samræmi við ráðleggingar (Lýðheilsustöð, 2008). Rannsóknirnar þurfa svo
að nýtast í stefnumótunarvinnu og áætlunargerð stjórnvalda til að eðlileg framþróun
verði í átt að auknu heilbrigði. Vafalítið eigum við einnig eftir að sjá aukna áherslu á
bæði almenn og sértæk meðferðarúrræði tengd hreyfingu innan heilbrigðiskerfisins
á komandi árum sé tekið mið af vísindalegum rökum um jákvæð áhrif hreyfingar
á framgang ýmissa langvinnra sjúkdóma sem við glímum við í auknum mæli. Ef
stjórnvöld taka betur mið af þessu og ýta undir samstarf íþróttafræðinga, næringar-
fræðinga, sálfræðinga, kennara á öllum skólastigum, hjúkrunarfræðinga, ljósmæðra,
sjúkraþjálfara og lækna eykur það aftur eftirspurn eftir hæfu vel menntuðu fólki sem
sérhæfir sig í hreyfingu og þjálfun. Það eykur svo líkurnar á því að íslenskt rann-
sóknarstarf þessu tengt haldi áfram að vaxa og dafna.
Greinarnar sem hér fara á eftir ættu að veita lesendum nokkurt yfirlit yfir þróun og
stöðu námsins sem boðið er upp á í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands. Þær
veita einnig innsýn í þætti sem tengjast námskrárgerð í íþróttum sem nú er unnið að.
Loks eru vangaveltur þess sem stýrt hefur náminu í íþrótta- og heilsufræðum undan-
farinn áratug um framtíðarviðfangsefni íþrótta- og heilsufræðinga á Íslandi. Njótið vel.