Uppeldi og menntun - 01.07.2012, Blaðsíða 45
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 21(2) 2012 45
Hrönn pÁlmadÓttir og JÓHanna einarSdÓttir
Hognestad, Svenning og Winger, 2010; Johansson, 2011a; Johansson og Emilsson, 2010).
Leikur og leikrænar athafnir barnanna einkennast af óreiðu þar sem líkaminn er þunga-
miðjan en um leið styður hreyfing líkamans við leikinn. Samkvæmt hefðbundnum
kenningum þroskasálfræðinnar hefur hreyfing líkamans oft verið skilgreind sem
þáttur í hreyfiþroska barna og flokkuð sem hreyfileikir en síður sem merkingarbær
samskipti (Danby, 2002; Hangaard Rasmussen, 1996; Løkken, 2009).
Í alþjóðlegu samhengi eru rannsóknir innan menntunarfræða með börnum undir
þriggja ára aldri nýtt rannsóknarsvið og þörf á frekari rannsóknum til að varpa ljósi
á margvíslega þætti varðandi leikskólagöngu barnanna (Berthelsen, 2010; Fleer, 2009;
Rayna og Laevers, 2011). Í samantektum yfir norrænar menntarannsóknir meðal ungra
leikskólabarna kemur fram að þrátt fyrir fjölgun rannsókna hin síðari ár sé skortur á
þekkingu á samskiptum, leik og tengslum yngstu leikskólabarnanna (Broström og
Hansen, 2010; Greve og Solheim, 2010; Hännikäinen, 2010; Johansson og Emilson,
2010).
Bent hefur verið á að yngstu leikskólabörnin séu jaðarhópur í opinberri orðræðu
um menntamál og jafnframt hefur því verið velt upp hvort þekking og upplifun
barna, sem ekki er tjáð með orðum, sé minna metin en mælanleg formleg þekking sem
tjáð er með orðum (Biesta, 2009; Greve, og Solheim, 2010; Johansson, 2011a; Johansson
og Emilson, 2010). yngstu leikskólabörnin, sem eru ekki enn farin að nota tungumálið
sem megintjáningarleið sína, gætu því haft takmarkaðri möguleika en þau sem eldri
eru á því að láta til sín taka í leikskólasamfélaginu.
Markmið rannsóknarinnar, sem hér er kynnt, er að varpa ljósi á það hvernig yngstu
leikskólabörnin skapa félagslegt samfélag í leik í leikskóla. Leitast verður við að lýsa
því, greina og túlka hvernig börnin líta á, byggja upp og þróa samskipti sín í leik.
Líkaminn, rödd barna
Rannsóknin byggist á kenningu franska heimspekingsins Maurice Merleau-Ponty
(1962, 1994) sem nefnd hefur verið „fyrirbærafræði líkamans“. Í kenningu hans um
lífheiminn (e. life-world, fr. monde vécu) er samtvinnuðum tengslum manneskjunnar
við umhverfið lýst. Manneskjan tjáir tilvist sína með líkamanum þar sem hið efnis-
lega og hið sálræna myndar heild eða kerfi sem verður ekki aðskilið. Lífheimurinn er
heimur þar sem náttúra, samfélag, menning, saga og barnið koma saman. Lífheimur-
inn táknar hið merkingarbæra samhengi sem hjálpar fólki að skilja og túlka umhverfi
sitt. Tjáning er samkvæmt kenningunni annað og meira en ein af aðgerðum mann-
eskjunnar; hún er grundvöllur tilvistar og þroska hennar. Lífheimurinn einkennist
af margræðni (e. ambiguity) og er hlutlægur og huglægur í senn. Í þessum skilningi
felst margræðni líkamans meðal annars í því að barnið er alltaf bæði ég sjálf/ur og
ég eins og aðrir upplifa mig (Doud, 1977; Hangaard Rasmussen, 1996; Heinämaa,
1999). Margræðnin í lífheimi barnsins birtist einnig í því að það getur bæði verið hæft
í samskiptum sínum við umhverfið og hjálparþurfi í sömu aðstæðum (Johansson og
Emilson, 2010).
Merleau-Ponty (1962, 1994) undirstrikar að manneskjan hafi reynslu af því að vera
í heiminum löngu áður en hún geti tjáð það með orðum. Frá upphafi beinir barnið