Uppeldi og menntun - 01.07.2012, Blaðsíða 146
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 21(2) 2012146
HlUtverk HÁSkÓlakennara í nÁmSkrÁrgerð
vera góður nemandi innan greinarinnar?), hlutverka kennara (hver er kennsluorðræða
greinarinnar?) og hvað skipti máli innan greinar (hver er stýrandi orðræða greinar-
innar?). Vettvangsathuganir voru fyrst og fremst notaðar til að varpa ljósi á samskipti
og ríkjandi menningu innan skorarinnar og það hvernig staðið var að sameiginlegum
ákvörðunum um námskrá.
Viðtöl voru afrituð, vettvangsathuganir skráðar og öll gögn lesin gaumgæfilega
og með opinni kóðun leitað að ríkjandi þemum. Við greininguna var beitt sífelldum
samanburði þar sem hvert viðtal eða vettvangsathugun var greind áður en aflað var
frekari gagna. Á síðari stigum greiningar voru lykilþemu endurskoðuð í ljósi þeirra
kenninga eða hugtaka Bernsteins sem byggt var á. Gögnin voru skoðuð enn á ný út frá
hugtökum Bernsteins, flokkun og umgerð og orðræðu uppeldis og kennslu, og þemu
skerpt ef við átti. Þannig leiddi greining gagna til kenninga sem varpað gátu ljósi á
gögn og kenning Bernsteins var jafnframt skoðuð í ljósi gagna (Strauss og Corbin,
1998). Textar voru sumir hverjir orðræðugreindir en aðrir fyrst og fremst notaðir til
að efla skilning rannsakanda á ramma námskrárgerðar. Við lok gagnagreiningar voru
niðurstöður um hverja háskólagrein bornar undir fulltrúa viðmælenda úr hverri skor.
Þar sem í texta er vísað beint í orð viðmælenda er háskólagrein kennara tilgreind.
hElstu niðurstÖður
Hér verða niðurstöður rannsóknarinnar settar fram í þremur meginþáttum. Fyrst
verður stuttlega gerð grein fyrir námskrá háskólagreinanna þriggja og sérstöðu þeirra.
Þá verður hugtakið staðbundin námskrá kynnt og gerð grein fyrir þeim þáttum sem
helst hafa áhrif á staðbindingu námskrár. Að lokum verður fjallað um það hvernig
kennarar háskólagreinanna þriggja upplifa svigrúm sitt til að taka ákvarðanir um val
þekkingar eða inntaks í námskeiðum sínum.
Námskrá háskólagreinanna þriggja
Háskólagreinarnar þrjár voru valdar með það í huga að þær væru þekkingarfræðilega
og félagslega ólíkar (Becher og Trowler, 2001; Bernstein, 1971). Þær voru þó vissulega
taldar eiga margt sameiginlegt enda tilheyra þær allar sömu stofnun og eru undir
hatti sameiginlegra laga og reglna. Markmið rannsóknarinnar var því ekki að skoða
að hvaða marki þær væru ólíkar heldur leita leiða til að draga fram, með viðtölum við
kennara, vettvangsathugunum og greiningu texta, ríkjandi hugmyndir um sérstöðu
hverrar greinar bæði hvað varðar stýrandi orðræðu hennar svo og kennsluorðræðu
(Bernstein, 2000; Squires, 1992). Með því að beita hugtökum Bernsteins um flokkun
og umgerð við greiningu gagna mátti draga upp mynd af því hvernig ólík orðræða
um uppeldi og kennslu setur mark sitt á námskrá greinanna þriggja. Hver námskrá er
ekki aðeins ólík námskrám hinna greinanna tveggja heldur einstök í sjálfri sér. Þannig
virðist hver háskólagrein, þrátt fyrir sameiginlegt stofnanaumhverfi, búa yfir einstakri
uppeldislegri orðræðu sem endurspeglast í námskrá. Í töflu eru niðurstöður greininga
á námskrá háskólagreinanna þriggja settar fram: