Uppeldi og menntun - 01.07.2012, Blaðsíða 172
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 21(2) 2012172
íÞrÓttakennara- og íÞrÓttafræðinÁm Á laUgarvatni fYrr og nú
fyrst og fremst hafa menntað íþróttakennara og starfið verið í nokkuð föstum og
hefðbundnum skorðum. Árni Guðmundsson tekur við af Birni Jakobssyni sem skóla-
stjóri árið 1956 (Anna Lilja Sigurðardóttir og Óli Barðdal, 2001) en þrátt fyrir fjölda
námsgreina og hugmyndir íþróttahreyfingarinnar um tveggja vetra nám (Ingimar
Jónsson, 2000) lengdist námið ekki fyrr en árið 1972 (Guðrún H. Eiríksdóttir, 1996). Þá
varð íþróttakennaranám að tveggja ára námi (tveir vetur) og skyldu nemendur starfa
við íþróttakennslu í a.m.k. 70 klst. sumarið á milli námsvetranna (Emil örn Kristjáns-
son og Rósa Þórisdóttir, 1981). Námsefni skólans jókst við þessa lengingu og skiptist
í þrennt: Kjarna (sameiginlegt námsefni allra nemenda), kjörsvið (námsefni, greinar
og greinaflokkar valdir af nemendum) og valgreinar (allt annað námsefni nemenda)
(Lög um Íþróttakennaraskóla Íslands nr. 65/1972). Einnig var tekin upp sú nýbreytni,
sem ekki lagðist af fyrr en skólinn sameinaðist Kennaraháskóla Íslands, að nemendur
og kennarar Íþróttakennaraskólans sáu um alla íþróttakennslu við aðra skóla á
Laugarvatni (Emil örn Kristjánsson og Rósa Þórisdóttir, 1981). Árið 1974 útskrifuðust
síðan fyrstu íþróttakennararnir eftir þessa lengingu námsins (Guðrún H. Eiríksdóttir,
1996) en á þessum árum voru nýir nemendur teknir inn í skólann annað hvert ár. Það
breyttist ekki fyrr en árið 1987, en þá var farið að innrita nemendur árlega.
íÞróttAkEnnArAnámið á lAugArVAtni
sEm háskólAnám
Árið 1997 tók Erlingur Jóhannsson við sem skólastjóri Íþróttakennaraskólans og strax
í janúar árið eftir sameinaðist skólinn Kennaraháskóla Íslands (Þórir Ólafsson, 1999).
Hugmyndir um sameiningu eða samvinnu þessara skóla höfðu reyndar komið fram
löngu áður og einnig áhugi á því að Íþróttakennaraskólinn færðist upp á háskólastig
(Emil örn Kristjánsson og Rósa Þórisdóttir, 1981). Íþróttakennaraskóli Íslands breyttist
því í námsbraut í íþróttafræði (og síðar íþrótta- og heilsufræði) innan Kennaraháskólans
(Lög um Kennaraháskóla Íslands nr. 137/1997). Þar með var íþróttakennaranám
komið á háskólastig eins og allt annað kennaranám á Íslandi og orðið þriggja ára nám
til bakkalárgráðu. Samfara þessari lengingu námsins og uppfærslu á háskólastig var
námið endurskipulagt með tilliti til breytinga á skólakerfinu, breyttra lifnaðarhátta og
hlutverks íþrótta og líkamsræktar (Erlingur Jóhannsson, 1999). Hið nýja nám byggðist
á 120 einingum í íþróttafræðum og íþróttagreinum og 60 einingum í uppeldis- og
kennslufræðum. Fyrstu tvö árin voru skipulögð með tilliti til íþróttakennslu í grunn-
skólum og þriðja árið undirbjó nemendur meðal annars fyrir kennslu í framhalds-
skólum. Á þriðja árinu gátu nemendur líka valið um þjálfunarsvið annars vegar og
tómstunda- og félagsmálasvið hins vegar (Erlingur Jóhannsson, 1999). Einnig urðu
með samruna Íþróttakennaraskólans og Kennaraháskólans þær breytingar að útskrif-
aðir nemendur gátu jafnframt kallað sig íþróttafræðinga en fram að því kölluðust
útskrifaðir nemendur einungis íþróttakennarar. Fyrstu íþróttafræðingarnir, lærðir á
Íslandi, sem jafnframt voru íþróttakennarar útskrifuðust 2001 og höfðu eftir sem áður
kennsluréttindi í bæði grunn- og framhaldsskólum.