Uppeldi og menntun - 01.07.2012, Blaðsíða 82
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 21(2) 201282
ný aðalnÁmSkrÁ og gömUl nÁmSkrÁrfræði
að „skipuleggja innihald og aðferðir til þess að ná markmiðum.“ En séu útlistanirnar
á markmiðunum ekki ítarlegri og úthugsaðri en nokkur virðist í raun geta gert þær
þá verður útkoman úr þessari forskrift allt of oft sú að menn nota aðferðir til að
skrumskæla innihald svo það þjóni markmiðum. (Stenhouse, 1970, bls. 74–76; P. H.
Hirst sem Stenhouse nefnir var enskur menntaheimspekingur sem vakti athygli um
1970.)
öðrum þræði virðist Stenhouse segja okkur að ef við ætlum að kenna bókmenntaverk
á borð við Hamlet þá eigum við að leyfa verkinu að tala til nemenda jafnvel þótt það
segi annað en við viljum segja. Við þurfum auðmýkt frammi fyrir námsefninu. Í því er
fleira en við kennararnir skiljum og áttum okkur á. Við leiðum nemendur inn í heim
þess þar sem við rötum sumar leiðir og þekkjum sum kennileiti, vonandi aðeins fleiri
en þeir, en samt bara sum.
„Ό βίος βραχύς, η δε τέχνη μακρή“ sagði læknirinn Hippókrates og Rómverjar
þýddu þetta „ars longa,vita brevis“ – listin er löng, lífið er stutt. Þessi vitund um
að heimur fræðanna sé stór og í þeim heimi sé hver maður lítill, jafnvel þótt hann
sé kennari, hefur lengi fylgt hugsjóninni um húmaníska menntun og frjálsar listir.
Stenhouse er hluti þessarar hefðar og skilur að frammi fyrir bókmenntahefðinni er
hann sjálfur heldur smár. Hann getur boðið nemendum handleiðslu inn í þessa hefð
en það er ekki hans að stjórna því nema að litlu leyti hvað hún segir þeim og hvaða
áhrif ferðalagið hefur á þá. Nemandinn og menningin eru bæði sjálfstæð gagnvart
kennaranum og hann á að virða þetta sjálfstæði. Þetta tengist öðrum þætti í gagnrýni
Stenhouse sem snýst um frelsi nemenda. Í greininni frá 1970 mælir hann með því að
kennsla sé skipulögð út frá yfirferð námsefnis fremur en markmiðum. Slíkt skipulag
út frá yfirferð hefur í raun tíðkast um langan aldur og þess gætti enn í sumum áfanga-
lýsingum í aðalnámskrá framhaldsskóla frá 1999 en það samrýmist ekki nýju aðal-
námskránni. Um þetta segir Stenhouse:
Rök mín sýna að einn af kostum þess að leggja áherslu á námsgreinar, fræðigreinar
sem og listgreinar, er að þær gera okkur kleift að byggja námskrána á því að tilgreina
innihald fremur en markmið … Námsgreinarnar gera okkur kleift að tilgreina hverju
er miðlað í menntunarferlinu fremur en hvað á að koma út úr því. Þetta mætir betur
þörfum nemenda því agað innihald er betur til þess fallið en markmið að færa ein-
staklingnum frelsi. (Stenhouse, 1970, bls. 76–77)
Hvernig á að skilja þetta? Einn mögulegur skilningur er að með því að ákveða aðeins
hvað verði kennt en ekki hvernig nemendur skuli verða að kennslu lokinni sé nem-
endunum látið eftir að nýta kennslu sem býðst til að ná eigin markmiðum. Markmið
nemenda með því að læra að skrifa góðan stíl, tala erlend mál, skilja listaverk eða
vinna úr tölulegum gögnum eru væntanlega ólík. Einn hyggst nota málakunnáttu til
að bæta stöðu sína á vinnumarkaði, annar til að lesa bókmenntir og sá þriðji til að ná
frama í stjórnmálum.
Eigum við kennararnir að ákveða á hvern hátt fræðin móta nemendur? Ef við reyn-
um það megum við alltaf vænta andófs. Svo jafnvel þótt við teljum okkur setja mark-
mið er ekki þar með sagt að nemendur stefni að þeim með námi sínu. Þessi möguleiki
á andófi var fólki ofarlega í huga þegar Schwab og Stenhouse mótuðu gagnrýni sína á