Uppeldi og menntun - 01.07.2012, Blaðsíða 52
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 21(2) 201252
YngStU leikSkÓlabörnin: Samfélag í leik
Þegar myndbandsupptökur eru notaðar í rannsóknum skiptir miklu máli að vanda til
upptökunnar en bæði hljóð og mynd geta haft áhrif á gæði gagnanna (Flewitt, 2006;
Heath og Hindmarsh, 2002). Svo að komast mætti nærri lífheimi barnanna og tryggja
gæði hljóðs og myndar reyndist nauðsynlegt að halda á upptökuvélinni og fylgja
hreyfingu barnanna eftir. Jafnframt þurfti að gæta þess vel að takmarka hreyfingu
vélarinnar. Upptökurnar beindust að því sem gerðist milli barna á tilteknum stöðum í
leikstofunum, svo sem í heimiliskrók þar sem börnin léku á gólfi með stærri leikföng,
og að leik barnanna við borð. Einnig kom fyrir að einu eða tveimur börnun var fylgt
eftir og leiddu þá athafnir þeirra sjónarhorn upptökunnar. Gagnstætt fullorðnum eru
börn yfirleitt fljót að venjast upptökunum (Greve, 2007; Hrönn Pálmadóttir, 2004;
Løkken og Søbstad, 1995). Johansson (2011b) leggur áherslu á að þó að ung börn séu
fljót að venjast rannsakanda og upptökutæki reyni þau einnig að skilja merkingu að-
stæðna, hvers sé vænst af þeim og hvernig þau eigi að koma fram við rannsakandann.
Eftir því sem á leið leituðu börnin eftir samskiptum við rannsakanda og sum þeirra
veittu upptökuvélinni athygli. Börnunum var þá boðið að horfa á félaga sína gegnum
linsuna og fannst það yfirleitt áhugavert um stund en misstu áhugann fljótlega og
héldu fyrri iðju áfram.
Greining gagna
Að nálgast og túlka sjónarhorn barna krefst aðgangs að athöfnum þeirra í þeirra
eigin lífheimi eða fyrirbærafræði barnanna sjálfra (Sommer, Pramling Samuelsson og
Hundeide, 2010).
Mörg siðferðileg álitamál koma upp þegar stigið er inn í heim barna og það gerir
ríkar kröfur til rannsakanda að gæta þess að trúnaður og virðing ríki í samskiptum
við þátttakendur (Dockett, Jóhanna Einarsdóttir og Perry, 2009; Jóhanna Einarsdóttir,
2007; Johansson, 2011a). Það er flókið að nálgast raddir ungra barna og vandaverk
að túlka þær. Í því sambandi er lögð áhersla á að veita líkamlegri tjáningu barnanna
sérstaka athygli og lýsa upplifun þeirra. Ef til vill er eingöngu hægt að líta á það sem
heiðarlega tilraun til að tala fyrir hönd þeirra (Eide og fl. 2010; Johansson, 2003; Johans-
son og Emilson, 2010).
Myndbandsupptökur gefa kost á að grandskoða smáatriði og greina þannig bæði
líkams- og máltjáningu barna. Einnig er mögulegt að stjórna hraða myndarinnar og
fá fram kyrrmyndir, til dæmis til þess að sjá hvert barnið beinir athygli sinni (Gillund,
2007; Graue og Walsh, 1998; Greve, 2007; Roberts-Holmes, 2005). Myndbandsupptök-
urnar í rannsókninni voru afritaðar yfir í texta en mikilvægt er að vera nákvæmur í af-
ritun og skipuleggja hana þannig að það henti rannsókninni (Bucholtz, 2007; Flewitt,
2006; Heikkilä og Sahlström, 2003). Í rannsókninni var afritun gerð í tölvuforritinu
InqScribe og lögð áhersla á skráningu óyrtra boðskipta, þ.e. svipbrigða, líkamsstell-
inga og tónfalls í rödd, auk orða. Skráð var hvernig börnin hófu leik og hvað þau
gerðu til þess að halda leiknum áfram. Auk þess voru aðferðir barnanna við að koma
inn í leik, sem þegar var hafinn, skráðar og hvernig börnin sem fyrir voru brugðust
við. Það er vandasamt að afrita úr mynd yfir í texta og ekki hægt að líta á það sem
annað en endursköpun á því sem átti sér raunverulega stað í samskiptum barnanna