Uppeldi og menntun - 01.07.2012, Blaðsíða 49
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 21(2) 2012 49
Hrönn pÁlmadÓttir og JÓHanna einarSdÓttir
Komið hefur í ljós að í samskiptum barna verða til félagsleg mynstur sem geta haft
áhrif á stöðu barnanna innan hópsins. Valdatengsl, sem skapast milli barnanna, geta
því haft áhrif á möguleika þeirra á að njóta félagslegra tengsla innan hópsins (Lee og
Recchia, 2008; Löfdahl 2006; Löfdahl og Hägglund, 2006). Í rannsóknum Johansson
(1999, 2011b) meðal ungra barna kom fram að börn beita bæði jákvæðum og neikvæð-
um aðferðum til að hafa áhrif á það hverjir fá að taka þátt í leiknum og hverjir ekki.
Einnig virðist vera eftirsóknarverðara að leika við félaga sem eru á líkum aldri en að
leika við sér yngri börn. Þessar niðurstöður eru í samræmi við rannsókn ytterhus
(2002) meðal þriggja til sex ára leikskólabarna þar sem félagsleg samvera barna var
skoðuð. Ef börnunum var leyft að velja leikfélaga kusu þau oftast börn sem voru lík
þeim í aldri, stærð og af sama kyni. Í rannsókn Shin, Recchia, Lee, Lee og Mullarkey
(2004) voru aðferðir leikskólabarna á aldrinum 22 mánaða til fjögurra og hálfs árs við
að stjórna öðrum (e. leadership behavior) kannaðar. Niðurstöður gáfu til kynna að
aðferðirnar sem börnin beittu tengdust fremur tengslum barnanna en persónulegum
eiginleikum þeirra. Börnin virtust nota félagslegt vald sitt til þess að þróa tengsl við
félaga og fullorðna samtímis því sem þau bæði veittu hlutdeild og útilokuðu ákveðna
félaga og kennara.
Innan barnahópsins í leikskóla verða smám saman til hefðir og menning sem
börnin skapa í sameiningu (Viencze, 1971). Corsaro (2003; 2005; 2009) hefur sýnt fram
á með rannsóknum sínum að börn á aldrinum tveggja til sex ára telji félagslega þátt-
töku sína innan barnahópsins mjög mikilvæga og þau þrói aðferðir til að ögra stjórn
fullorðinna. Í rannsóknum hans komu fram tvö meginþemu sem einkenndu athafnir
barnanna innan jafningjamenningarinnar. Annars vegar voru það tilraunir barnanna
til að öðlast stjórn á lífi sínu og hins vegar til að deila stjórninni með öðrum. Það getur
verið flókið fyrir börn að laga sig að og viðhalda samskiptum sín á milli. Þegar börn
eru í leik og hafna öðrum börnum eða útiloka þau frá leiknum túlkar Corsaro það
sem tilraunir þeirra til að vernda samskiptasvæði (e. interaction space) sem þau hafi
þegar skapað í samvinnu með leikfélögum. Hann bendir á að tilhneiging sé í þá veru
að túlka athafnir barnanna sem eigingjarnar eða að börnin séu ekki nægilega þroskuð
til að deila með öðrum börnum.
Hreyfing og leikur barna getur verið í andstöðu við hugmyndir leikskólakennara
um það hvernig börnin eiga að nota líkamann og hvernig umhverfið á að líta út. Stólar
geta til dæmis gegnt því hlutverki að „venja“ líkama barna við fyrirfram ákveðið
skipulag og draga úr óreiðu sem fullorðnir upplifa að einkenni tjáningarmáta ungra
barna (Kirkeby, Gitz-Johansen og Kampmann, 2005). Leikur barnanna er ekki endilega
óreiða út frá sjónarhóli þeirra; þau móta sínar eigin reglur (Andersen og Kampmann,
1996). Í rannsókn Corsaros og Molinari (1990) með tveggja ára leikskólabörnum kom
fram að þau glöddust sameiginlega og notuðu hluti í umhverfinu á skapandi hátt
sem var í andstöðu við fyrirætlun starfsfólks. Niðurstöður rannsóknar Rutanen (2007)
í finnskum leikskóla eru á sömu lund en þar kom í ljós að eins og tveggja ára leik-
skólabörn tóku virkan þátt í að skapa sameiginlega menningu með svipbrigðum og
hreyfingu. Börnin bjuggu til frumlegar hreyfingar og merkingu með leikföngum sem
þeim var boðið að leika sér með en athafnir þeirra voru ekki alltaf í samræmi við fyrir-
ætlanir og væntingar kennara þeirra um notkun leikfanganna.