Uppeldi og menntun - 01.07.2012, Blaðsíða 174
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 21(2) 2012174
íÞrÓttakennara- og íÞrÓttafræðinÁm Á laUgarvatni fYrr og nú
og einbeita sér að íþrótta- og heilsuþjálfun og þá sem vilja halda áfram í MS-nám.
Þeir sem ljúka MS-námi geta einnig sótt um leyfisbréf til kennslu í framhaldsskólum
sé samsetning náms þeirra með þeim hætti að það uppfylli skilyrði um 60 staðlaðar
uppeldis- og kennslufræðieiningar (Háskóli Íslands, 2011). Það má því segja að með
þessum tveimur kjörsviðum sé loksins kominn vísir að þeirri skiptingu námsins í
kennaranám og þjálfara- og leiðtoganám sem kveðið var á um í lögum um Íþrótta-
kennaraskóla Íslands frá 1942 (Lög um Íþróttakennaraskóla Íslands nr. 12/1942).
Bæði kjörsviðin byggja á sameiginlegum 130 eininga kjarna (Háskóli Íslands, 2011).
Í kjarnanum eru 50 uppeldis- og kennslufræðieiningar og 80 fageiningar. Nemendur á
kennarakjörsviði taka svo 30 uppeldis- og kennslueiningar til viðbótar í skyldufögum
og 20 fageiningar í vali. Nemendur á þjálfarakjörsviði taka 25 þjálfunartengdar fagein-
ingar til viðbótar í skyldufögum og 25 fageiningar í vali (Háskóli Íslands, 2011).
Að BS-námi loknu gerir námsskipulagið ráð fyrir að nemendur á kennarakjörsviði
fari í M.Ed.-nám og að nemendur á þjálfarakjörsviði fari í MS-nám hafi þeir uppfyllt
skilyrði um námsárangur. Námið er hins vegar ekki sett upp sem fimm ára nám heldur
sem þriggja ára BS-nám og tveggja ára meistaranám bætist þar ofan á. Nemendur geta
því hætt eftir BS-námið ef þeir vilja og farið út á vinnumarkaðinn eða í nám á öðrum
námsbrautum HÍ eða í öðrum háskólum. Í Kennsluskrá Háskóla Íslands kemur fram
að nemendur í M.Ed.-námi taka 90 einingar í námskeiðum (þar af 40 uppeldis- og
kennslufræðieiningar) og skila 30 eininga M.Ed.-ritgerð. Nemendur í MS-námi þreyta
60 einingar í námskeiðum og skila 60 eininga MS-ritgerð. Ætli MS-nemendur sér að
geta sótt um leyfisbréf til kennslu í framhaldsskóla verða þeir að taka tíu uppeldis- og
kennslufræðieiningar sem hluta af námi sínu (Háskóli Íslands, 2011).
Eins og greint var frá hér að framan færðist íþróttakennaranám upp á háskólastig
árið 1998 (fyrsta útskrift 2001). Allir íþróttakennarar sem höfðu útskrifast á Íslandi til
og með ársins 1999 voru því einungis með íþróttakennarapróf en ekki bakkalárgráðu.
Til að mæta þörfum þessara nemenda var árið 2001 í fyrsta sinn í boði námsleið fyrir
fólk með „gamalt“ (fyrir árið 2000) íþróttakennarapróf, svokallað viðbótarnám til BS-
gráðu (Kennaraháskóli Íslands, 2001). Um er að ræða 60 eininga nám á grunnstigi og
íþróttakennaraprófið er svo metið til 120 eininga (Háskóli Íslands, 2011).
Einnig er rétt að geta 30 eininga viðbótardiplómu í heilbrigði og heilsuuppeldi
á meistarastigi sem hóf göngu sína haustið 2012 (Háskóli Íslands, 2012). Námið er
hlutanám í eitt ár, 15 einingar á hvorri önn, og allir sem hafa lokið bakkalárgráðu geta
farið í þetta nám (Háskóli Íslands, 2012). Viðbótardiplóman er einkum hugsuð fyrir þá
sem starfa við kennslu í leik-, grunn- eða framhaldsskólum, við þjálfun, við endurhæf-
ingu, að forvörnum eða við önnur störf á sviði heilbrigðis- eða menntamála og vilja
dýpka þekkingu sína á þessu sviði (Háskóli Íslands, 2012). Hafi nemendur svo áhuga
á frekara meistaranámi í íþrótta- og heilsufræði geta þeir fengið diplómuna metna
inn í meistaranámið. Jafnframt geta nemendur sem ná ekki fyrstu einkunn úr grunn-
námi og komast því ekki í MS- eða M.Ed.-nám tekið þessa diplómu og nái þeir fyrstu
einkunn í fögum hennar eru þeir gjaldgengir í meistaranám í íþrótta- og heilsufræði.