Uppeldi og menntun - 01.07.2012, Blaðsíða 60
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 21(2) 201260
YngStU leikSkÓlabörnin: Samfélag í leik
að ganga. Í kenningu Merleau-Pontys er bent á að samskipti feli í sér tilfinningalega
margræðni sem tjáð er með líkamanum. Þessar niðurstöður benda til þess að börn geti
verið hæf í samskiptum en jafnframt varnarlaus og óörugg með stöðu sína og þátttöku
innan barnahópsins.
Auk þess benda niðurstöður til þess að félagsleg staða barna hafi áhrif á félagslega
þátttöku þeirra í leik. Félagsleg staða barnanna virtist tengjast aldri þeirra, hæð og
félagslegri reynslu innan barnahópsins í leikskólanum. Eldri börnin, eða þau sem voru
komin á þriðja ár, virtust hafa félagslegt vald til að veita yngri börnunum hlutdeild í
leik eða meina þeim að vera með. Þau leiðbeindu þeim yngri og létu sig líðan þeirra
varða en höfnuðu einnig tilraunum þeirra til þátttöku í leiknum þegar þeim sýndist
svo. yngri börnin, sem voru um og undir tveggja ára aldri, virtust félagslega athugul
og fylgdust glöggt með leik eldri barnanna og reyndu sig. Merleau-Ponty hefur bent
á að lífheimur barna er í senn huglægur og hlutlægur og felur í sér tilfinningalega
svörun barnanna við umhverfinu. Í samskiptum barnanna í leik gefa þau til kynna
hverjir eru ákjósanlegir leikfélagar og hvaða leikefni laðar þau til leiks. Virk þátttaka
yngri barnanna og viðleitni þeirra til að láta fyrirætlanir sínar ná fram að ganga í sam-
skiptum og leik var háð því að eldri börnin viðurkenndu sjónarhorn þeirra. Þetta er í
samræmi við aðrar rannsóknir þar sem fram hefur komið að valdatengsl, sem verða
til innan barnahópsins, geti haft áhrif á möguleika barna á að njóta félagslegra tengsla
innan hópsins (Lee og Recchia, 2008; Löfdahl, 2006) og að börn beiti bæði jákvæðum
og neikvæðum aðferðum til að hafa áhrif á það hverjir fá að taka þátt í leiknum og
hverjir ekki (Johansson, 1999, 2011b).
Þessari rannsókn var ætlað að bæta við þekkingu og auka skilning á því hvernig
yngstu leikskólabörnin líta á félagsleg samskipti sín og tengsl við önnur börn í leik-
aðstæðum í leikskóla. Það er óneitanlega áskorun að lýsa athöfnum ungra barna og
túlka þá merkingu sem fram kemur í samskiptum þeirra á milli. Rannsakandi þarf
að beita nálgunum sem opna margvíslegan skilning á lífheimi barna og möguleikum
þeirra á því að láta raddir sínar hljóma. Johansson (2011b) hefur bent á mikilvægi
gagnrýninnar notkunar hugtaksins „sjónarhorn barna“ í rannsóknum. Hún veltir því
fyrir sér hvort rannsakandi geti í raun túlkað líkamstjáningu barna og gert sjónarhorn
þeirra að sínu. Hins vegar leggur Kalliala (2011) áherslu á að opinn hugur sé mikilvæg
forsenda þegar skoða á hvað gerist í daglegu lífi barna í leikskólum.
Margir samverkandi þættir, bæði félagslegir, menntunarlegir og menningarlegir,
hafa áhrif á líf ungra barna og fjölskyldna þeirra. Í umræðu um stöðu leikskólans í
samfélaginu er mikilvægt að byggja á breiðum þekkingargrunni og hluti þeirrar þekk-
ingar er upplifun og skilningur barnanna sjálfra á félagslegu lífi sínu innan leikskól-
ans. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að líkamstjáning gegni veigamiklu
hlutverki í merkingarsköpun barna þegar þau móta félagslegt samfélag sitt í leik.
Ætla má að það eigi ekki einungis við um yngstu leikskólabörnin heldur einnig börn
sem hafa ekki þau tök á íslenskri tungu sem vænta má samkvæmt aldri, til dæmis
börn af erlendum uppruna og börn með fatlanir. Þegar rætt er um sjónarhorn barna
er mikilvægt að taka mið af margbreytileika barnahópsins og leita leiða til að nálgast
sjónarhorn allra barnanna.