Uppeldi og menntun - 01.07.2012, Blaðsíða 140
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 21(2) 2012140
HlUtverk HÁSkÓlakennara í nÁmSkrÁrgerð
Rannsóknin fór fram við Háskóla Íslands á árunum 2003–2007 og tók til háskóla-
kennara í þremur háskólagreinum, véla- og iðnaðarverkfræði, mannfræði og eðlis-
fræði. Kveikjan að henni er sú trú mín að námskrárgerð sé vandmeðfarin iðja sem hafi
veruleg áhrif á nemendur (sjá t.d. Barnett og Coate, 2005; Foucault, 1980) og að háskóla-
kennarar hafi verulegt stofnanabundið ákvörðunarvald um hana (Háskóli Íslands,
2006) án þess þó endilega að vera sér meðvitaðir um það vald (Guðrún Geirsdóttir,
2008, 2011). Markmið rannsóknarinnar var að skoða viðhorf háskólakennara innan
þriggja háskólagreina til námskrár sinna greina. Ég vildi kanna hvernig ákvarðanir
um mikilvæga þekkingu nemendum til handa eru teknar, hvernig talið er best að
miðla þeirri þekkingu og hvernig hlutverk nemenda og kennara eru skilgreind. Ég
vildi koma böndum á það sem Barnett og Coate (2005) kalla námskrá í framkvæmd (e.
curriculum-in-action) en með því eiga þau við flókið samspil þekkingar, kennsluhátta
og samskipta innan uppeldisstofnana. Ég vildi þó fyrst og fremst beina athyglinni
að því hvernig háskólakennarar sjálfir upplifðu sinn þátt í námskrárákvörðunum og
hvernig sá munur birtist milli háskólagreina. Rannsóknarspurningar mínar voru eftir-
farandi: Hverjar eru hugmyndir háskólakennara um námskrá eigin greina og hvernig
upplifa háskólakennarar umboð sitt og valdsvið til námskrárákvarðana?
Hér á eftir verður gerð grein fyrir þeim kenningalega grunni sem rannsóknin hvílir
á, aðferðunum sem stuðst var við í öflun og greiningu gagna og greint frá helstu
niðurstöðum. Námskrárgerð á háskólastigi hefur lítt verið rannsökuð hérlendis sem
erlendis. Niðurstöður þeirra rannsóknar sem hér eru kynntar ættu því að vera mikil-
vægt framlag til hagnýtrar umræðu um námskrárgerð en um leið ættu þær að beina
sjónum að því hvernig nota má kenningar til að skilja sérstöðu námskrárgerðar.
kEnningAlEgur bAkgrunnur
Námskrárhugtakið er fremur vítt og óljóst og ótal tilraunir hafa verið gerðar til að
skilgreina það (sjá t.d. Goodlad, 1984; Pinar og félaga, 1996). Rannsóknir á námskrám
á háskólastigi hafa verið gagnrýndar fyrir það að líta á nám og kennslu sem afmörkuð
fyrirbæri án tengsla við þær fræðigreinar og hefðir sem þau hvíla í. Þannig verður
umræða um nám og kennslu fyrst og fremst tæknileg og skortir sárlega hugmynda-
fræðilegar og pólitískar víddir (Barnett og Coate, 2005; Malcolm og Zukas, 2001).
Til að varpa ljósi á hvernig háskólanámskrár verða til (í flóknum aðstæðum) valdi
ég kenningar breska félagsfræðingsins Basils Bernstein (1971, 1990, 2000) um tilurð
orðræðu uppeldis og kennslu (e. pedagogic discourse), hugtök hans, flokkun (e.
classification) og umgerð (e. framing), og hugmyndir um samsafnaðar (e. collection-
type) og samþættar (e. integrated-type) námskrár og samsafnað og samþætt skipulag
stofnana (e. organizational structure). Kenningar og hugtök Bernsteins hafa ekki verið
mikið notuð í íslenskri menntaumræðu (sjá þó Þuríði Jóhannsdóttur, 2007) og þarfnast
nokkurra skýringa.
Hugtökin flokkun og umgerð eru lykilhugtök í kenningum Bernsteins. Rót hugtak-
anna er hugmyndir Bernsteins um vald (e. power) og stýringu (e. control) sem má
vissulega greina að en eru þó samofin. Valdatengsl (e. power relations) löggilda og