Uppeldi og menntun - 01.07.2012, Blaðsíða 22
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 21(2) 201222
SJÁlfStJÓrnUn barna og Ungmenna
að því sem kalla má skort á sjálfstjórnun, þ.e. hvernig lítill sjálfsagi leiðir til ýmiss
konar óæskilegrar hegðunar og óheilbrigði, svo sem þátttöku í afbrotum og ofþyngdar
(sjá til dæmis Evans, Fuller-Rowell og Doan, 2012). Meðal fræðimanna sem rannsaka
þroska barna og ungmenna virðist þó almennt litið svo á að sjálfsagi sé aðeins einn
undirþáttur sjálfstjórnunar. Þegar fólk stjórnar eigin tilfinningum, hugsun eða hegð-
un, kemur sjálfsagi vissulega við sögu. Fólk þarf til dæmis sjálfsaga til að halda aftur
af reiði eða halda athygli að krefjandi verkefni, en eins og fjallað hefur verið um fellur
ýmiss konar önnur færni undir sjálfstjórnun, svo sem markmiðssetning og sveigjan-
leiki í hugsun. Kopp (1982) lítur svo á að sjálfsagi sé undanfari flóknari sjálfstjórnunar.
Það er mikilvægt að börn læri sjálfsaga, til dæmis að halda aftur af gráti og nota frekar
orð til að leysa ágreining, en þegar barn hefur náð slíkri stjórn gefur það færi á flóknari
sjálfstjórnun sem gerir því kleift að beina og breyta hegðun sinni í takt við kröfur um-
hverfisins hverju sinni með það fyrir augum að ná markmiðum sínum (Kopp, 1982).
Algengt er að greint sé á milli tilfinningastjórnunar (e. emotional self-regulation)
annars vegar og vitrænnar sjálfstjórnunar (e. cognitive self-regulation) hins vegar
(McClelland o.fl., 2010). Tilfinningastjórnun, sem stundum er lýst sem „heitri“ sjálf-
stjórnun, vísar til þess hversu auðvelt fólk á með að stjórna tilfinningum og áhuga-
hvöt og tjáningu þeirra (Willoughby, Kupersmidt, Voegler-Lee og Bryant, 2011). Líkt
og hugræn sjálfstjórnun felur tilfinningastjórnun í sér stjórnun hugsunar (til dæmis
athygli) og hegðunar (til dæmis að halda aftur af viðbragði), en í tengslum við áreiti
sem vekur sterkar tilfinningar, svo sem reiði eða löngun. Margar af fyrstu rannsókn-
unum á sjálfstjórnun snerust að miklu leyti um tilfinningastjórnun. Mischel er braut-
ryðjandi í rannsóknum á getu barna til að standast freistingar (e. delay of gratification)
og frægastar eru sjálfsagt „sykurpúðatilraunir“ hans frá því á seinni hluta síðustu
aldar (Baumeister o.fl., 2007). Í slíkri rannsókn er barni yfirleitt boðinn einn sykur-
púði sem það má borða samstundis en ef barnið getur beðið í vissan tíma án þess að
borða sykurpúðann fær það tvo sykurpúða að biðinni lokinni. Rannsóknir Mischels
og samstarfsmanna sýndu að geta barna á leikskólaaldri til að standast freistingar
tengdist ýmiss konar þroska á sama aldri, ekki síst velgengni í námi. Þegar börnum
sem tekið höfðu þátt í rannsóknum þeirra þegar þau voru á leikskólaaldri var fylgt
eftir á unglingsárum kom í ljós að tengslin vörðu enn, til dæmis áttu börn sem gátu
staðist freistingar og haldið aftur af hegðun á leikskólaaldri betri samskipti við aðra,
leið betur og gekk betur í námi á unglingsaldri en börnum sem höfðu átt erfitt með
slíka stjórnun (Mischel, Shoda og Rodriguez, 1989). Það vakti athygli að ein mæling
á afmarkaðri getu skyldi hafa forspárgildi fyrir námsgengi svo löngu síðar. Nýlegar
rannsóknir á sjálfstjórnun setja niðurstöður Mischels í víðara samhengi, meðal annars
við vitræna stjórnun. Færnin sem börn þurfa til að standast sykurpúðaprófið stuðlar
einnig að námsárangri; þau þurfa að setja sér markmið (fá tvo sykurpúða frekar en
einn), stjórna hegðun til að standa við áætlunina (taka ekki sykurpúðann sem er fyrir
framan þau, til dæmis með því að beina athygli að einhverju öðru eða minna sig á
verðlaunin sem bíða þeirra) og halda aftur af lönguninni í sykurpúðann og því við-
bragði að taka það sem þau langar í. Nýrri rannsóknir leiða einnig í ljós mikilvægi
tilfinningastjórnunar í að takast á við neikvæðar tilfinningar. Tökum dæmi um dreng
sem er strítt af félaga sínum í skólanum. Ef drengurinn hefur góða tilfinningastjórnun