Uppeldi og menntun - 01.07.2012, Blaðsíða 103
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 21(2) 2012 103
HJalti JÓn SveinSSon og rúnar SigÞÓrSSon
samræmi við niðurstöður úttektar Svanhildar Kr. Sverrisdóttur o.fl. (2011) á íslensku-
kennslu í átta framhaldsskólum. Þátttakendur B-hópsins lögðu hins vegar meira á sig
til þess að hægur lestur til dæmis yrði þeim ekki fjötur um fót. Þessar niðurstöður eru
í samræmi við ýmsar rannsóknir á úthaldi og þrautseigju unglinga í námi sínu; þeir
sem hafi trú á eigin getu séu líklegri til þess að ryðja hindrunum úr vegi og laga sig að
kröfum sem gerðar séu til þeirra hverju sinni (Adeyemo, 2010; Bandura, 1997).
Þátttaka foreldra
Áberandi munur var á niðurstöðum rannsókna á hópunum tveimur um þátttöku for-
eldra í náminu. Þó að langflestir þátttakendur A-hópsins segðust hafa verið í góðu
sambandi við foreldra sína sem fylgst hefðu með námi þeirra að einhverju marki,
virtist hafa verið um fremur hlutlaus samskipti að ræða. Foreldrar þeirra virtust til
dæmis ekki hafa reynt að hafa áhrif á það hvort þeir héldu áfram námi eða ekki, þó að
undantekningar væru þar á.
Þátttakendur B-hópsins höfðu langflestir orð á því að þeir hefðu fljótlega komist að
því þegar þeir komu í VMA að til þess væri ætlast að þeir bæru ábyrgð á eigin námi.
Þeir kunnu því vel enda vanir því úr grunnskóla, að kennarar hefðu „sífellt [verið]
að klifa á því.“ Þrátt fyrir þetta kváðust allir þátttakendur B-hópsins hafa metið það
mikils hvað foreldrar þeirra fylgdust vel með námi þeirra og voru iðnir við að veita
þeim aðhald og hvetja þá áfram, auk þess sem sumir fengu umtalsverða aðstoð frá
þeim. Nokkrir þátttakenda tóku svo til orða að þeir væru eflaust ekki lengur í skóla ef
þáttur foreldra þeirra væri ekki jafn mikill og raun bar vitni.
Þessi niðurstaða er í samræmi við niðurstöður ýmissa rannsókna, þar á meðal þeirra
Sigrúnar Aðalbjarnardóttur og Kristjönu Stellu Blöndal (2005), um tengsl uppeldis-
aðferða foreldra 14 ára unglinga og þess hvort þeir hefðu lokið framhaldsskóla við 22
ára aldur. Þar kom fram mikil fylgni milli stuðnings og hvatningar foreldra og hvaða
líkur væru á því hvort börn þeirra lykju framhaldsskólanámi eða hyrfu frá því. Þetta
er einnig í samræmi við ýmsar erlendar rannsóknir sem sýna fram á að góð tengsl við
foreldra meðan á framhaldsskólanámi stendur hafa mikil áhrif á trú unglinga á eigin
getu (Akos, 2010; Bandura, 1997).
Í lögum um framhaldsskóla frá 2008 (Lög um framhaldsskóla nr. 92/2008) var í
fyrsta sinn kveðið á um að í hverjum framhaldsskóla skyldi skipað foreldraráð til að
tryggja þátttöku foreldra í skólastarfinu. Með tilkomu þessa má gera ráð fyrir að aukin
áhersla verði lögð á hlut foreldra í náinni framtíð.
Í góðum félagsskap
Vinir eru taldir einn mikilvægasti þátturinn í lífi unglingsins og ýmsar rannsóknir
benda til þess að á þessu æviskeiði geti svo farið að þeir verði honum jafnvel mikil-
vægari en foreldrarnir (Akos, 2010; Harter, 1999; Schunk og Miller, 2002). Þá er talið að
nemendur með trú á eigin getu séu líklegri til þess að velja sér duglega námsmenn sem
vini (Bandura, 1997). Viðmælendur í A-hópi höfðu langflestir átt góða vini. Reyndar
var það svo að viðfangsefni vinanna voru mismunandi eftir því hvort þátttakendur