Uppeldi og menntun - 01.07.2012, Blaðsíða 121
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 21(2) 2012 121
gUðrún alda HarðardÓttir og kriStJÁn kriStJÁnSSon
í einkunnum en í niðurstöðum rannsóknar Bodil Ekholm og önnu Hedin (1993), um
staðblæ (s. daghemsklimat) í tólf sænskum leikskólum, kemur fram að framkoma og
hegðun leikskólakennaranna þar hafði sterk smitunaráhrif á hegðun og virkni leik-
skólabarnanna. Í þeim leikskólum þar sem samvinna starfsfólks um leikskólastarfið
var mikil var samvinna og samleikur mikill meðal barnanna. Í leikskólum þar sem
lítið samstarf um leikskólastarfið var meðal starfsfólks léku börnin sér frekar sam-
hliða en saman. Í könnun Kristínar Dýrfjörð (1997) á viðhorfum leikskólakennara til
uppeldisstarfs í íslenskum leikskólum kemur fram að leikskólakennararnir forgangs-
röðuðu þættinum „hvernig talað er við börn“ í fimmta sæti sem áhrifaþætti á gæði í
starfi leikskóla, á meðan í nágrannalöndum okkar er sá þáttur talinn hafa mest áhrif
á gæðin (Kärrby, 1993; The National Association for the Education of young Children
(NAEyC) og The National Association of Early Childhood Specialists in State Depart-
ments of Education, 1991; Sylva, Melhuish, Sammons, Siraj-Blatchford og Taggart,
2004).
Höfundar þessarar greinar telja brýnt að markvissari rannsóknir á áhrifamætti
sjálfsvirkni og trúar á eigin getu fari fram í leikskólum, meðal annars á Íslandi, og
telja, sem fyrr segir, að kenning Bandura sé þar ónýtt auðlind. Vangaveltur þær sem
settar eru fram í því sem eftir lifir þessa kafla eru – vegna skorts á reynslurannsóknum
– ekki annað en tilgátur um hvað gæti komið út úr slíkum rannsóknum eða skipt máli
fyrir þær, byggðar á ábendingum Bandura og okkar eigin hugrenningum.
Ef kenning Bandura um (sviðsbundna) trú á eigin getu er sett í samband við leik-
skólastarf er ekki gefið að tengsl séu á milli trúar leikskólakennara á eigin getu og
trúar þeirra á getu barnanna. Leikskólakennarar gætu til dæmis verið ánægðir með
eigið starf og stöðu án þess að þeir hefðu mikla trú á getu barnanna. Þeir yrðu þá um
leið uppteknari af eigin þörfum en barnanna. Slíkt gæti til að mynda birst í því að
kennararnir færu oft og lengi í kaffi með vinnufélögunum, eða spjölluðu við vinnu-
félagana um lífið og tilveruna yfir höfðum barnanna. Þannig getur kennarahópur í
leikskóla haft mikið álit á sér og verið mjög samhentur. Árangur af slíku samstarfi
getur falist í glöðu starfsfólki en ekki endilega glöðum börnum eða árangursríku leik-
skólastarfi. Þá er vert að velta fyrir sér hvort trú á eigin getu í skilningi Bandura sé
ávallt til góðs á vettvangi leikskólans eða geti hreinlega verið hættuleg. Til dæmis: Ef
barn trúir á getu sína til að geta klifrað upp á húsþak og stokkið frá einu þaki yfir á
það næsta þá má segja að um gönuhlaup sé að ræða, að trú barnsins á eigin getu hafi
ógnað heilsu þess. Það má því segja að í hugtakinu trú á eigin getu – þegar því er rétt
beitt – felist nokkurs konar iða af sjálfsaga, sjálfstrausti, raunhæfum markmiðum sem
einstaklingurinn setur sér og afrakstri þeirra.
Hyggjum að hinum fjórum stoðum trúar á eigin getu samkvæmt Bandura (1995,
1997) og hvernig vert væri að skoða þær í ljósi leikskólastarfs: Fyrsta stoðin, sem áður
var nefnd, er fyrri reynsla, er barni tekst til dæmis vel að kljást við verk. Hjá leikskóla-
barni getur verkið verið af ýmsum toga, til dæmis að klæða sig í fingravettlinga sem
oft getur reynst því erfitt. Að takast að klæða sig í fingravettlingana eflir trú barnsins
á eigin getu og trú þess eflist við vitneskju byggða á fyrri reynslu um að það „gat“;
það eflir trú þess á eigin getu og stuðlar að því að barninu tekst enn betur næst er það
tekst á við að klæða sig í fingravettlingana. önnur stoðin að mati Bandura er fyrirmyndir,