Uppeldi og menntun - 01.07.2012, Side 53
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 21(2) 2012 53
Hrönn pÁlmadÓttir og JÓHanna einarSdÓttir
(Flewitt, 2006; Johansson, 2011b). Af þessum sökum bendir Greve (2007) á mikilvægi
þess að bera ítrekað saman mynd og texta í greiningarferlinu. Í rannsókninni reyndist
oft nauðsynlegt að gera slíkt, og rýna til dæmis í líkamsstellingar barna í því skyni að
túlka með meira öryggi tjáningu barnanna og afstöðu til samskiptanna.
Athafnir barna og leikur eiga sér stað hér og nú og í tilteknu menningarlegu og
sögulegu samhengi sem hefur áhrif á túlkunina (Graue og Walsh, 1998; Johansson,
1999; Punch, 2006). Út frá túlkunarfræði (e. hermeneutics) var leitast við að túlka og
skýra athafnir barnanna í ljósi þeirrar merkingar sem þau lögðu í samskipti sín í leikn-
um (Crotty, 2006). Vettvangsnóturnar voru marglesnar og kóðaðar og því næst flokk-
aðar með tilliti til þeirra þema sem upp komu við greiningu myndbandanna. Einnig
komu upp flokkar sem leitað var að í myndböndunum (Roberts-Holmes, 2005). Við
greiningu og kynningu niðurstaðna er lögð áhersla á samskiptin sem komu fram í
myndböndunum og eru þau staðfest með lýsingum úr afritunum á þeim.
niðurstÖður og umræðA
Félagslegum samskiptum barnanna í leik verður hér lýst með dæmum sem eru túlkuð
og rædd með hliðsjón af þeim kenningarlega grunni sem rannsóknin gengur út
frá. Dæmin voru valin með það fyrir augum að þau væru lýsandi fyrir niðurstöður
rannsóknarinnar. Athugaðar voru þær leiðir sem börnin, sem hér verða kynnt undir
dulnefni, notuðu til að skapa félagslegt samfélag sitt í leik, hvernig börnin mynduðu
tengsl og hófu samskipti í leik, hvernig þau héldu leiknum áfram og hvernig þau
komu sér inn í leik sem þegar var hafinn. Þau mynstur sem fram komu í tjáningu
barnanna á fyrirætlunum sínum eru túlkuð sem sjónarhorn þeirra. Litið er á líkamlega
tjáningu barnanna, auk þess sem þau segja, sem tjáningu á því hvernig þau upplifa
merkingu og hvað er merkingarbært fyrir þau.
Að hefja leik
Bujtendijk hefur bent á að í leik eru börnin virkir gerendur í lífi sínu og skapa merk-
ingu og samhengi með athöfnum sínum. Leikurinn krefst þess einnig að þau noti fjöl-
breytt samskipti innan ákveðinna aðstæðna (Åm, 1989; Hangaard Rasmussen, 1996).
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að börnin tjáðu með líkamanum fyrirætlanir sínar
um að hefja samskipti og reyna að koma af stað leik við félagana. Jafnframt benda
niðurstöðurnar til þess að félagsleg staða barnanna hafi áhrif á það hvaða börn fái
að taka þátt í leik og hver ekki. Eftirfarandi dæmi lýsir samskiptum sem áttu sér stað
í innri leikstofu deildarinnar. Átta börn voru í stofunni ásamt leikskólakennara sem
fylgdist með börnunum og brást við ef þau leituðu til hans.
Myndbandsupptakan beindist að fjórum börnum en 10 mánaða aldursmunur var
á yngsta og elsta barninu í þessu dæmi. Anna sem er tveggja ára og fjögurra mánaða
(2,4), Sara (2,0), og Jón (1,4) stóðu þétt saman úti við glugga en Silla (2,0) var einnig í
leikstofunni og kom inn í samskipti barnanna í lok upptökunnar.