Tímarit Máls og menningar - 01.09.1988, Page 91
Myndir á Sandi
vegna myndhvarfa eða nafnskipta. Að hans dómi eiga myndhvörf sér stað
þegar valið er. Nafnskipti verða hins vegar til við tengingu og eru undir-
staða samhengis.
Á grundvelli þessara hugmynda setti Jakobson fram kenningu um skáld-
skapargildi: það myndast þegar jafngildisregla valsins er færð út í tenging-
una10. Sé sagt að „frúin sigli eftir götunni“ hefur sögnin „að sigla“ verið val-
in úr ákveðnu safni orða, hún tengd við nafnorðið „frú“ með þeim afleið-
ingum að göngulag konu og hreyfing skips samlagast í vitund þess sem
nemur, öðlast jafngildi. Með tengingunni er þannig ólíkum merkingarsvið-
um steypt saman.
Oll orðlist einkennist af samspili háttanna tveggja, myndhvarfa og nafn-
skipta. Annar er þó að jafnaði ríkjandi innan einstakra orðræðna og bók-
menntagreina. Þannig er ljóðlistin í eðli sínu háð myndhvörfum, bæði hvað
varðar stíl og heildargerð. Vensl í tíma og rúmi, rökbundin framvinda, lúta
samsvörun málhljóða, háttbundnum hliðstæðum ljóðlína, rími og skipan
andstæðna. Tengingar ráðast yfirleitt af vali og líkindum. Frásögn er á hinn
bóginn háð nafnskiptum að mati Jakobsons. Hún tengir saman umhverfi,
persónur og tíma í krafti nálægðarvensla. Áherslan er þó mismikil og fer
eftir höfundum, tímaskeiðum og stefnum. Rómantísk eða táknsæ frásögn
hneigist að jafnaði til myndhvarfa andstætt epískri sögu sem byggist ævin-
lega á nálægð innan kerfis en ekki sviplíkingu ólíkra kerfa. Raunsæis-
höfundur, sagði Jakobson, beitir nafnskiptaaðferð til að afhjúpa umhverfi
með atburðarás, tíma og rúm með persónum11. Texti hans er rökvís og þétt-
ofin festi. Raunsæishöfundur notar myndhvörf í hófi því að þau draga at-
hygli lesandans frá því sem vísað er til og grafa um leið undan „veruleika-
líkingu“ textans.
Eins og bent hefur verið á einkennast mörg nútímaskáldverk af því að
þol málfars þeirra er þreytt til hins ýtrasta. Við þau átök hefur samband
nafnskipta og myndhvarfa orðið ístöðuleysi að bráð. Þannig fela margar
nútímaskáldsögur í sér öfgakennda notkun háttanna beggja: orðræðan er
nánast algerlega nafnskipt eða myndhverfð og þá umfram allar raunsæis-
reglur. Þessi ofmögnun ofbýður „trúverðugleika“, hindrar að textinn geti
blekkt og sundrar rökbundnu, sögulegu samhengi. Nú á dögum er slík
orðræða eðlileg því að verufræði tungumálsins hefur breyst, þéttleiki þess
og markhæfni: „Sagði ekki einhver, hver var það sem sagði, orðið stóll er
ekki stóll. . ,“12. Margir nútímahöfundar lýsa fyrirbærum eins og þau eigi
sér ekkert táknmið, hefðbundið og gamalgróið. Þess í stað reyna þeir að
„afrita“ fyrirbærin og neyða lesandann til að sökkva sér í flaum orða uns
hann ber ekki lengur kennsl á merkinguna, heildin sundruð. Fyrirbærin
birtast þá með nýjum hætti, gædd áður óþekktu lífi eða öllu heldur: þau
345