Tímarit Máls og menningar - 01.09.1988, Blaðsíða 136
Tímarit Máls og menningar
breyta fjalli, og á þá við hvernig Stefán,
hliðstætt Þórbergi, vefur einkennilega
heildstæðan heim með hjálp „skáld-
sagnaelementa" í bland við minninga-
tóninn. Og sjálfsháðið vegur jafn hárná-
kvæmt salt á burðarásum í textanum.
En þegar minnst er á skáldskap er rétt
að huga að einu. Trúlega á þessi nýja
bók Stefáns sér mesta samsvörun í Mín-
um Mönnum af fyrri bókum hans. Þar
er að finna þessa skrýtnu blöndu af
skáldskap og einhverju öðru. Til að fyr-
irbyggja misskilning, þá nota ég ekki
orðið skáldskapur í merkingunni til-
búningur. Og ég nota það heldur ekki í
einhverri upphafinni merkingu. Það
felst fleira í orðinu en blasir við svona
við fyrstu athugun. Menn athugi það í
rólegheitum. Eg nota orðið hér og nú til
að gefa í skyn ákveðna afstöðu til lífs-
ins. Og það er eitt af því sem einkennir
Að breyta fjalli, að í henni er sannur
(búinn að afklisja þetta orð líka til ör-
yggis) tónn sem styrkir vitund manns
þegar lesið er, um að höfundurinn hafi
lifað svo lengi með efnivið sínum og
hafi öðlast slíka yfirsýn að hann getur
skoðað úr öllum áttum að því er virðist
samtímis; ofan af Búlandstindi, utan af
sjó, innan úr miðju þorpi -
„Hvergi hef ég komið þar sem
fremur háttaði til athafnasemi
duldra magna en á Djúpavogi á
þeim dögum, á dimmum og
krókóttum göngustígum milli
dreifðra húsa innan um svartar
klettaborgir, þar sem hvergi sá
ljós, ef ljós skyldi kalla, nema
rauðleitan bjarma frá olíulampa í
stöku glugga. Jú, tunglskin feng-
um við með reglubundnum
hætti, svo sem annars staðar, og
stjörnuskin er veður leyfði. En
það er einmitt þá, þegar tungl
veður í skýjum, að ekki sé
minnst á skarðan mána, sem ís-
lenskir draugar verða aðsóps-
mestir.“ (bls. 83).
Einsog sjá má af tilvitnuninni hér að
ofan hefur frásögn Stefáns yfir sér ein-
hvern blæ sem kannski mætti kalla ný-
þjóðsagnakenndan, hún vinst einatt úr
kímnisögu yfir í draugasögu og síðan
þegar minnst varir yfir í kímnisögu aft-
ur. Verkkunnátta Stefáns er slík að
margir skáldsagnahöfundar mættu öf-
unda hann af henni einni, en það sem
meira er um vert; hann stýrir þessari
kunnáttu, lætur hana ekki ná yfirhönd-
inni, og nær þessvegna sterkari áhrifum.
Tilgangur hans er ekki að sýna hvað
hann kann fyrir sér, heldur að veita les-
anda hlutdeild í heillandi og óvenjuleg-
um heimi sem þarf að komast á blað. Sá
sem les líður gegnum þessa bernsku-
sögu einsog lonta niður bugðóttan bæj-
arlæk með ótal holbökkum og hringið-
um. Stefán er stílisti í bestu merkingu
þess orðs; honum er lagið að sýna
manni viðfangsefni sitt í sínu persónu-
lega ljósi, og hann notar málið mark-
visst. Það vísar manni áfram, dýpra.
Benedikt skólastjóri á Húsavík hefur
greinilega séð honum fyrir góðu vega-
nesti.
Að mestu leyti fjallar bókin um
bernsku Stefáns á Djúpavogi, með
millikafla frá Húsavík, þar sem teikni-
kennarar reika um hurðlausar snjóhall-
ir. og til móts við þessa litlu veröld leið-
ir hann annað veifið, svo sem fyrir til-
viljun, stóra heiminn: þjóðfélags-
ástæður, heimsástand þessara
millistríðsára, kreppu, pólitíska baráttu.
En einsog endranær bregður hann hlut-
unum upp við sinn eigin lampa og
skyggnir þá. Hann varast líka að
íþyngja bernskulýsingum um of með
390