Tímarit Máls og menningar - 01.06.1998, Blaðsíða 58
ÁRNI BERGMANN
Á ungum aldri ræddi hann í grein um Stephan G. Stephansson um það
hve dýrmætt er að eignast snillinga sem eru „velgerðarmenn heillar þjóðar“.
Síðan segir Halldór:
Fyrir tilverknað þeirra stækkum vér og eflumst. . . Líf vort verður
fyllra, vitundin dýpri, einstaklingsháttur vor persónulegri. Og vér
förum að lyfta höfðinu í virðulegri reisn en áður gagnvart alheimin-
um.24
í þessum orðum er að finna kjarna og höfuðeinkenni þeirrar menning-
artengdu þjóðernishyggju sem er líkast til sú hugmyndafræði sem lifir
lengstu og samfelldustu lífi í skáldskap Halldórs og ritgerðum - og um leið
má lesa úr þeim einskonar stefnuskrá fyrir sjálfan hann, sem hann bar gæfu
til að fara eft ir. Hann reyndist sannarlega velgerðarmaður heillar þjóðar. Eins
og margoft er tekið fram stöðvaði hann með eigin fordæmi þá þróun að
íslenskir rithöfundar yfirgæfu tungu sína og skrifuðu á öðrum málum í von
um meiri útbreiðslu, stærri markað eins og nú er sagt.25 Aldrei þreyttist
Halldór á að brýna fyrir íslendingum sem og erlendum mönnum að enginn
ástæða væri til þess fyrir hann (né þá aðra) að kvarta yfir því hlutskipti að
skrifa á tungu fámennrar smáþjóðar.26 Annað stef sem kveður við á hverjum
áratug starfs hans í mörgum tónbrigðum er áminning til landa hans um
hvílíkan fjársjóð þeir eigi í tungu sinni, í fornum bókmenntum og ekki síst
í því að „eingin þjóð hafi, svo vitað sé, verið eins niðursokkin í orðsins list
og íbúar þessa lands“.27 Hann þreytist seint að hamra, með ástríðu jafnt sem
æðruleysi, á þessari sérstöðu íslendinga og fmna sem best rök fyrir því að
við höfnum í bráð og lengd þeirri freistingu „að láta svelgja (okkur) upp af
menníngu voldugra nágranna" þótt hagkvæmt kynni að sýnast á efnahags-
reikningi.28 Með rökum sínum og með skáldskap sínum er hann öflugastur
málsvari siðaðrar þjóðrækni sem gefur mönnum sjálfstraust til að „lyfta
höfðinu í virðulegri reisn gagnvart heiminum“. Hann reynist sínu fólki með
öðrum orðum þjónn og leiðtogi í senn. Leiðtogi og þjónn.
En Halldór Laxness kallaði ekki þetta framlag sitt til tilveruraka íslendinga
þjónustu svo munað sé - og ekki skyldu heldur, enda um að ræða einhverja
þá grundvallarþætti í verki hans og viðhorfum sem illa falla að slíkum
hugtökum. Annað mál er það, hvort hann hafi ekki með sjálfu fordæmi sínu
skapað öðrum rithöfundum landsins „frumskyldur“ eða „höfuðskyldur"
sem þeir geta ekki komist hjá að taka mark á, hver með sínum hætti.
56
TMM 1998:2