Tímarit Máls og menningar - 01.06.1998, Blaðsíða 80
SVEINN EINARSSON
segir skáldið söguna iðulega með tilsvörum einum, að hætti leikrita. í
Skeggræðum gegnum tíðina, viðurkennir Laxness, að í síðustu skáldsögum
sínum hafi hann reynt að brúa bilið milli skáldsagnagerðar og leikritunar.
„Það verður auðvelt að leika ýmsar skáldsögur mínar svotil óbreyttar, þegar
búið er að fella lýsingar niður“. Skeggræður komu út 1972 f]órum árum eftir
skáldsöguna Kristnihald undir Jökli, en þá hafði og leikgerð Kristnihaldsins
gengið á þriðja leikár í Iðnó.
En Umbi heldur sem sagt vestur undir Jökul. Sá heimur sem þar mætir
honum er harla ólíkur þeim heimi leikritanna, þar sem allt er falt, heimi
þeirra Feilans Ó. Feilans, sem væri tilbúinn að selja sjálfa þjóðarsálina, ef
hann bara kæmi krumlum yfir hana, heimur þeirra innflytjenda og útflytj-
enda í Strompleiknum, fegurðarstjórans, Þrídísar Rögnvaldar Reykils í
Dúfnaveislunni, heimur firna og fáránleika, heimur óþægilegra sanninda þó.
En Umba skilst, að hér er einnig tekist á um sálir, kannski hans eigin sál líka.
Ekki með hefðbundnum messum og öðru kirkjustússi, slíkt tilstand virðast
menn þar um slóðir alveg hafa lagt á hilluna, heldur með því annars vegar
að gera við prímusa, hins vegar með því að lífmagna jökla.
Sagan er nánast byggð upp sem leynilögreglusaga og skýrslu Umba er
ætlað hlutverk í samræmi við það. Það er þó ekki alls kostar auðvelt að halda
hlutlægni sinni gagnvart öllum lífsins fyrirbærum eins og Umbi fær að
kynnast, þegar Hnallþóra trúir honum fyrir reynslu sinni af hulduhrútnum.
Hið yfirskilvitlega fer hálf-illa í skýrslu. Ekki gengur honum betur með
safnaðarformanninn Tuma Jónsen eða dóttur hans Fínu: sannleikurinn er
svo afstæður að engu tali tekur, hann blífur ekki einu sinni í munnmælum
frá einni kynslóð til annarrar. Þegar Umbi reynir að koma viti fyrir klerkinn
Jón, fá hann til að hirða laun sín eins og aðrir prestar og sinna sínum
prestverkum, hefur hann heldur ekki erindi sem erfiði. Séra Jón er hins vegar
fáanlegur að gera við hraðfrystihús, jafnvel þó að þau séu ekki arðbær, svo
ekki sé nú minnst á amboð og skrár. Og að öðru leyti er honum fátt að
vanbúnaði, maular eitthvað sem hann finnur í vasa sér. Um Helga bónda á
Torfhvalastöðum segir séra Jón, að hann haldi að hann hafi fundið upp
púðrið. Séra Jón er ekki uppveðraður af því, enda segir hann, að sá sem ekki
lifi í skáldskap, lifi ekki af hér á jörðunni. Kannski hefur Henrik Ibsen hugsað
eitthvað svipað, þegar hann var að búa til Hjálmar Ekdal.
En er það ekki flótti? Umbi verður vitni að merkilegu samtali gamalla
kviðmága, séra Jóns og heimsmannsins dr. Godman Sýngmann. Nægjusemi
og óáreitni séra Jóns er Sýngmanni, sem raunar hét nú upprunalega bara
Guðmundur Sigmundsson, kallaður Mundi, framandi líkt og heimtingar
Sýngmanns af þessum heimi og öðrum eru séra Jóni framandi. Guðmundur
þessi hefur haft árangursrík viðskipti víða um lönd, en þar kemur að hans
78
TMM 1998:2