Tímarit Máls og menningar - 01.06.1998, Blaðsíða 65
STÍGVÉLAÐI KAVALÉRINN
eitt sinn svo til orða í bréfi að hann væri vaxinn upp yfir það sem daglega er
átt við með orðinu maður, - hann hefði verið persónugervingur á einhverju
æðra stigi veruleikans. Sú skoðun mín hefur ekki breyst.“18
Ég get ekki stillt mig um að tilfæra eina svipmynd sem Halldór bregður
upp í Gerska ævintýrinu (1938) af gömlum erkibiskupi í bæ einum rétt utan
við Tíflis í Grúsíu, hann segir:
„Þessi hári þulur sem hafði séð öllu jafnað við jörðu sem verið hafði
vegur hans og virðing, ríkinu, kirkjunni, keisaranum, guðinum, hann
hefur hlotið að undirgángast mikið próf og standa nú hér á rústum
lífs síns einsog í eyðimörku, án beiskju og í höfðinglegri ró, persónu-
legum virðuleik, mannlegri tign.“19
í mannskilningi Halldórs á þessum árum, frá klausturárunum og fram yfir
íslandsklukkuna, er að mínu viti ekki um forlagahyggju að ræða og stór
spurning hvort þar gætir nokkurra áhrifa ff á fornsögunum nema í stílbrögð-
um. Þvert á móti skrifaði hann á þessum sama tíma (1942) „Inngáng að
Passíusálmunum“ og gerir þar grein fyrir jesú-gervingnum í bókmenntum
og það gerir hann einnig í effirmála að Grettissögu útgáfunni 1946. Það er
líka spurning hvernig sósíalisminn kemur inn í mannskilning h^ns og
samfélagshugmyndir á þessum árum, hvernig eða hvort hann endurspeglast
í verkum hans. Arnas Arnæus er enginn Örn Úlfar, hann er ekki baráttumað-
ur í anda sósíalismans, eigi það við um einhvern í fslandsklukkunni væri það
helst Jón Hreggviðsson sem er kannski öllu heldur stjórnleysingi sem afneit-
ar réttlætisskilningi samfélagsins og því best að fjölyrða ekki meira um þá
hugmynd enda komið að lokaorðum.
Niðurlag
Það er skynsamlega ályktað hjá Kristjáni Karlssyni að Arnas Arnæus sé
aðalpersóna íslandsklukkunnar. Um hann snýst málið, um hans baráttu fyrir
réttlæti, um hans lífsviðhorf.
Það er ekki söfhun handrita sem málið snýst um, það er ekki heldur ástin
til Snæfríðar sem er örlagavaldur í hans lífi. Það er baráttan fýrir réttlæti. í
þeirri baráttu er Arnas ekki stjórnmálamaður í nútímaskilningi heldur
hugsjónamaður og fulltrúi klassískra viðhorfa til mannlegra höfuðdyggða
og ekkert fær komið honum af þeirri leið sem hann hefur ákveðið að fara.
Hann er miklu meiri heimsmaður en íslendingur, hann berst fyrir lífsgildum
sem þekkja engin landamæri og takmarkast heldur ekki við tíma né rúm.
Þau gilda á íslandi rétt eins og hvar sem er annars staðar, hér er ekki spurning
um lög og reglur heldur réttlæti sem er ekki aðeins ein dyggðanna heldur
TMM 1998:2
63