Tímarit Máls og menningar - 01.06.1998, Blaðsíða 54
ÁRNl BERGMANN
skáldskapinn hreinan af allri nytjahyggju. Oft er meiru logið. Tókum dæmi
af Kristjáni Albertssyni, sem hefur fyrr og síðar komið með fróðlegum hætti
til sögu undirtekta við verk Halldórs Laxness. Margir muna að Kristján var
mjög reiður Halldóri, ekki aðeins fyrir skrif hans um „Gerska ævintýrið“
heldur og fyrir Atómstöðina sem hann taldi „pólitískt níðrit“ sem honum
yrði ekki fyrirgefið, hvað sem Nóbelsverðlaunum liði. Kristján kveðst hins-
vegar hafa hrifist mjög af öðrum helstu verkum skáldsins - en málið er ekki
svo einfalt.16 Kristján Albertsson skrifaði frægan ritdóm um Vefarann mikla
frá Kashmír (Loksins loksins . . .) og lofaði þá bók hástöfum eins þótt hún
þætti hneykslanleg, m.a. vegna hæpins samanburðar á eiginkonum og skækj-
um. En þegar kom að Sölku Völku nokkrum árum síðar gat Kristján ekki
stillt sig um að hneykslast á Halldóri í ritdómi. Hann lofar að vísu kvenlýs-
ingar í skáldsögunni og fleira, en þegar kemur að „lýsingu á yfirstéttarfólki í
litlu íslensku sjávarplássi“ þá telur hann margt í henni „bláberar ýkjur og
ósannindi, þar sem prestahatur og auðvaldshatur höfundarins svalar sér í
algleymingi." Það er athyglisvert að ritdómarinn vill taka sér vald til að
úrskurða hvenær skáldsagnahöfundur segir satt eða lýgur um heilar þjóðfé-
lagsstéttir, en þetta hér er þó athyglisverðast úr sama ritdómi:
Halldór Kiljan Laxness væri meira skáld en hann er ef hann hefði
manndóm í sér til þess að vera í skáldsögum sínum ekkert nema
skáld.17
„Að vera ekkert nema skáld“ er víssulega jafngildi ýtrustu kröfu um
bókmenntir sem ekki láta sér detta í hug að fella dóma um samtíðina, og sú
krafa er hápólitísk: ritdómarinn þolir ekki hvernig lýst er Bogesen útgerðar-
manni og hans fólki. Hann dregur ekki dul á að hann vill að sú „yfirstétf ‘ sé
tekin mildari tökum en gert er í Sölku Völku.
En fleira hangir á þessari spýtu. Margir eru þeir sem vilja gjarna að skáld
skrifi ádrepur um illa valdhafa og blási að frelsis glóðum einhversstaðar
annarsstaðar - í íran eða Sovétríkjunum sálugu eða Tyrklandi - um leið og
þeir fýla grön ef rithöfundar reyna eitthvað svipað hér og nú. Óþarft að vera
að slíku hér, segja menn. Þeir hafa auðvitað rangt fyrir sér. En þó er í slíku
nöldri sannleikskorn að finna. Sú freisting eða þörf að skrifa afstöðubók-
menntir fer vissulega að nokkru leyti eftir því hve brýn þau málefni eru sem
á þjóðum og minnihlutahópum og lágstéttum brenna. Meðan rússneskir
bændur voru ófrjálsir menn var erfitt fyrir sæmilega rithöfunda að sneiða
hjá því böli sem bændaánauðin var, enda gerðu þeir það ekki. Alan Paton og
Nadine Gordimer hlutu að fella sinn dóm yfir kynþáttalöggjöf sem hvítir
menn settu í Suður-Afríku - með því meðal annars að skrifa um afleiðingar
52
TMM 1998:2