Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1997, Blaðsíða 159
Jónas Gíslason
honum og bað hann: „Kom yfir til Makedóníu og hjálpa oss!“ En jafnskjótt
og hann hafði séð þessa sýn, leituðum vér færis að komst til Makedóníu,
þar sem vér skildum, að Guð hafði kallað oss til þess að flytja þeim
fagnaðarerindið.“
Þarna sést berlega, að höfundur Postulasögunnar slæst í fórina með
Páli í Tróas og fer með honum til Evrópu. Telja má líklegt, að „vér-
kaflarnir“ geti verið eins konar dagbókarfrásögn Lúkasar frá þeim tíma,
er hann starfaði með Páli.
Aðrar frásagnir seinni hluta Postulasögunnar eru byggðar á
frásögnum Páls og nánustu aðstoðarmanna hans, en þeir voru samstarfs-
menn Lúkasar. Hann þekkti því næsta vel atburði úr lífi og starfi Páls,
þótt hann væri ekki sjálfur þátttakandi í þeim öllum. Án efa er sumt haft
beint eftir Páli sjálfum, t.d. frásögnin af fyrstu kristniboðsferð Páls. Sama
máli gegnir eflaust um frásöguna af postulafundinum í Jerúsalem, sem
sagt er frá í 15. kafla.
Um fyrri hluta Postulasögunnar hefur Lúkas eflaust fyrir sér frá-
sagnir ýmissa þeirra, sem þar áttu hlut að máli. í 8. kafla segir frá
atburðum, er snerta Filippus, ekki postula, heldur einn af djáknunum sjö,
sem nefndir eru í 6. kaflanum. Postularnir létu kjósa þá til að annast
safnaðarþjónustu í frumsöfnuðinum, þegar hann fór að stækka, til þess að
postularnir gætu helgað sig boðun fagnaðarerindisins.
í Post. 21:8 segir frá því, er Lúkas hitti Filippus. Þeir hafa þannig
þekkzt og Filippus djákni er sennilega sjálfur heimildarmaður þeirra
atburða, sem snerta hann persónulega.
Þá gætu frásagnirnar af starfi Péturs postula hæglega verið frá honum
sjálfum komnar, þótt líklegt verði einnig að telja, að Páll hafi ritað niður
slíkar frásagnir, því að þær voru afar mikilvægar fyrir málstað hans
sjálfs. Kannski hafa skinnbækurnar, sem Páll nefnir í 2. Tím. 4:13,
geymt einhverjar slíkar frásögur:
„Fær þú mér, þegar þú kemur, möttulinn, sem ég skildi eftir í Tróas
hjá Karpusi, og bækurnar, einkanlega skinnbækurnar.“
Ekki er ólíklegt, að fyrstu kaflar Postulasögunnar byggi á sams konar
heimildaöflun og Lúkasarguðspjall, en þar hafði Lúkas kynnt sér allt sem
nánast samkvæmt frásögnum sjónarvotta og þjóna orðsins, Lúk. 1:1-2.
Loks er það eitt megineinkenni Postulasögunnar, hve nákvæmlega eru
raktar ræður postulanna, en þar sýnist mér líklegt, að Lúkas hafi stuðzt
við ritaðar heimildir. Ræðurnar eru frásagnir af mikilvægum atburðum og
bera með sér sanngildi sitt. Þær snerta beint viðkomandi atburð og eru
nátengdar ytri aðstæðmn hverju sinni, bera margar einkenni höfunda
sinna og eru greinilega ritaðar af heyrnar- og sjónarvottum.
157