Skagfirðingabók - 01.01.1969, Side 49
ÞÁTTUR MÁLA-BJÖRNS
að halda þeim við sömu tölu. Ekki er mér kunnugt um leigumála á
þessum árum, en um síðustu aldamót greiddu leiguliðar að jafnaði
8—10 gemlinga eftir hverja sæmilega góða meðaljörð. Hefur því
Birni bætzt vel í búið á hverju vori. Auk þess voru greiddir af leigu-
liðum tveir fjórðungar smjörs eftir hvert kúgildi, er jörðunum fylgdi.
Pétur Jónasson segir mér einnig eftir sömu heimild, að Björn hafi
oft verið málreitinn, þótt alblindur væri orðinn. Bauð hann jafnan
inn til sín þeim kirkjugestum, er í betri bænda röð voru, og veitti
þeim brennivín og annað til hressingar.
Pétur Jónasson minnir, þótt ekki vilji hann fullyrða, að sér hafi
sagt verið, að Pétur langafi sinn hafi keypt Hofstaði af Birni Illuga-
syni, fyrst hálfa jörðina og síðar hinn helminginn. Ég efast mjög
um, að þetta fái staðizt. Ég hef leitað í veðmálabókum Skagafjarðar-
sýslu og finn þar ekki, að Hofstaðir hafi verið seldir á árunum 1849,
er Pétur kemur þangað sem leiguliði, fram yfir daga Guðrúnar Þor-
kelsdóttur, ekkju Björns. Hafi jörðin verið seld á þessum árum, hlyt-
ur þeirri sölu að hafa verið þinglýst. En það er efalaust rétt, sem
Pétur telur, að Pétur langafi hans hafi fyrst keypt hálfa jörðina og
hinn helminginn síðar. Þykir mér ekki ólíklegt, að hann hafi keypt
Hofstaði af erfingjum Guðrúnar. Gat jörðin, við fráfall hennar,
skiptzt milli tveggja erfingja. En arfaskiptagerning eftir Guðrúnu
finn ég ekki, þótt leitað hafi allt til ársins 1867. Mér þykir líklegt,
að Guðrún, sem var fastheldin búhyggjukona og hélt vel á fjármál-
um, hafi ekki viljað selja Hofstaði meðan hún lifði.
Bein Reynistaðarbræðra fundust loks alllangan spöl frá tjaldstaðn-
um árið 1846. Voru þau jarðsungin á Reynistað með viðhöfn af
séra Halldóri Jónssyni prófasti í Glaumbæ. Var ýmsum boðið að
vera viðstaddir þá athöfn, m. a. Birni Illugasyni. Kvaðst hann ekki
skyldugur til að vera við jarðarför neinna útilegumanna og fór
hvergi, enda orðinn fjörgamall maður, 86 ára, og naumast hestfær.
Þess verð ég að geta, að hvorugur þeirra Jón Sigurðsson né Gunn-
laugur Björnsson sögðu mér þessa sögu, svo að ég muni, heldur hef
47