Skagfirðingabók - 01.01.1969, Page 57
VILLA Á GEITHÚSMELUM
á Ánastöðum Sveinbjörn Sveinsson frá Mælifellsá. Þá um vorið girti
hann fjórþætta girðingu á merkjum milli Ánastaða og Breiðargerðis,
frá Svartá að vestan og austur á hálsinn svo langt sem land Ána-
staða náði. Þessi girðing var með fyrstu hagagirðingum í sveitinni,
og það var hún, sem stöðvaði Kristin í villunni, og ekki er gott
að segja, hvar hann hefði annars lent með lýð sinn. Á þessum stað
varð það ljóst, að við vorum búin að fara í hálfhring, út með háls-
inum að austan, eins og átti að vera, og sveigja vestur fyrir hann,
líklega skammt fyrir sunnan Breiðargerðislæk, og síðan suður með
honum að vestan að girðingunni. En nú var snúið við og stefna
tekin á Breiðargerði, og gekk það vel. Við gengum þar um túnið,
og nam Kristinn staðar við vatnsból bæjarins, sem var skammt frá
bænum við túnjaðarinn að norðan. Eins og víða tíðkaðist á þessum
tíma, hafði verið byggt dálítið hús yfir lindina. Kristinn hefur eðli-
lega verið orðinn sveittur og þyrstur eftir gönguna. Hann beygði sig
inn í brunnhúsið, tók ofan hattinn, gerði brot á hattbarðið og drakk
þar úr. Til þess tíma hafði mér ekki dottið í hug, að hægt væri að
nota virðulegan hatt sem drykkjarílát.
Ekki kann ég fleira að segja frá þessari kirkjuferð, en sjálfsagt
hef ég lesið jólakveðjuna frá orði til orðs, þegar ég kom heim. Jóla-
kveðjurnar, sem sendar voru frá Danmörku á þessum árum, voru
gott lestrarefni fyrir börn og unglinga. í þeim voru fallegar sögur
og myndir frá Austurlöndum nær og fjær.
Ekki get ég skilið við söguhetju mína, Kristin Tómasson, án þess
að segja frá honum dálítið meira. Hann mun hafa verið ættaður úr
Eyjafjarðarsýslu og flutt sig vestur í Skagafjörð eftir að hann var
uppkominn. Hann var tæplega meðalmaður á hæð, en þreklega vax-
inn, og vel að manni mun hann hafa verið. Ég hygg, að hann hafi
verið vel greindur, en hann bar það ekki utan á sér, því hann var
fámáll og dulur í meira lagi. Hann vann löngum hjá öðrum og þótti
góður verkmaður og trúr þjónn. Kona Kristins, Sigríður Jónína Óla-
dóttir, var ættuð utan úr Skefilsstaðahreppi. Jónína, eins og hún var
oftast kölluð, var að ýmsu leyti ólík manni sínum. Hún var skraf-
hreifin og létt í lund, en dugnaður og iðjusemi var eins hjá báðum,
þó ekki söfnuðu þau veraldarauði. Þess er áður getið, að þau hjón
55