Skagfirðingabók - 01.01.1969, Page 121
GÍSLX HALLDÓRSSON
sveitinni og hann fæddist í, þjónar sem hjú öðrum frá því hann
hafði aldur til, unz hann hverfur af landi brott, hálf fimmtugur að
aldri, deyr þar einu eða tveimur árum síðar, ókvæntur og einn síns
liðs alla tíð. En þannig virðist ævi þessa manns hafa verið í aðal-
dráttum, eftir því sem bezt verður vitað.
Gísli var fæddur að Miðsitju í Blönduhlíð 5. október 1854. For-
eldrar hans voru Halldór Gíslason og Jórunn Guðmundsdóttir, hjón
búandi þar. Halldór var sunnlenzkur að ætt, fæddur í Garðahreppi
á Álftanesi árið 1812, sonur Gísla Snorrasonar og Sesselíu Guð-
mundsdóttur, hjóna búsettra að Sveinshúsum. Jórunn var af kunnum
skagfirzkum ættum, sömu ættgrein og séra Friðrik Friðriksson dr.
theol. — Þau hjón munu hafa verið mjög févana og létu af búskap
vorið eftir að Gísli fæddist. Flytjast þau þá vestur yfir Héraðsvötn
og koma aldrei fyrir í hópi búandi fólks í héraðinu eftir það. Að
öðru leyti hefur ferill þeirra ekki verið rakinn, þar eð Gísli mun
ekkert hafa haft af foreldrum sínum að segja nema fyrstu vikurnar,
sem hann lifir, því að í janúarmánuði 1855 er drengurinn kominn
í fóstur að Brekkukoti hinu fremra í Blönduhlíð, til sæmdarhjóna,
er þar bjuggu, Halls Hallssonar og Onnu Jónsdóttur. Hjá þeim er
hann svo að staðaldri til 1870 og líklega eitthvað lengur, en eyða
verður þá um nokkurra ára bil í þeim heimildum, sem ég hef við
höndina og að því lúta. En árið 1875 er Gísli kominn í vinnu-
mennsku að Ytri-Komm, enda mun þá fósturmóðir hans vera látin
og Hallur hættur búskap, þá um sjötugt.
Árið 1878 flyzt Gísli frá Kotum út í Seyluhrepp og er þar næstu
fjögur árin, á Víðimýri og Syðra-Vallholti, ýmist nefndur smali eða
vinnumaður. En árið 1883 hverfur hann úr þeirri sveit, og hefur
ekki verið hirt um að kanna feril hans, þar til hann 1888 kemur
utan frá Sauðá og ræðst vinnumaður að Miklabæ, en ári síðar fer
hann að Hjaltastöðum og er í vinnumennsku þar, unz hann fer til
Vesturheims árið 1899, að einu ári undanskildu, sem hann er á Fjalli
í Kolbeinsdal.
Þetta er í stórum dráttum hin ytri umgerð ævi Gísla, þar til hann
yfirgefur ættjörð sína.
Eins og fyrr segir er Gísli í höfundaskrá sálmabókarinnar talinn
119