Skagfirðingabók - 01.01.1969, Side 122
SKAGFIRÐINGABÓK
dáinn árið 1902, og veit ég ekki, eftir hvaða heimild það er haft.
í almanaki Ól. Thorgeirssonar er nafn hans ekki á meðal látinna ís-
lendinga í Vesturheimi það ár, og mun það þó yfirleitt vera taem-
andi talið varðandi þau tíðindi á þeim árum, a. m. k. um fulltíða
fólk. Hins vegar deyr í Ontaríofylki hinn 5. ágúst 1901 Gísli Jóns-
son, „ættaður úr Blönduhlíð, 46 ára". Trúlegt þykir mér, að þar sé
um Gísla frá Hjaltastöðum að ræða, þó að föðurnafnið sé skakkt.
Heiti sveitarinnar er rétt og aldur mannsins nákvæmur, því að hann
hefði orðið 47 ára þá um haustið. Vel hefði getað dregizt um eitt
missiri eða svo, að fréttin um lát hans bærist hingað heim og að
það hafi villt.
Ókunnugt er mér um, hvort sálmurinn, sem nefndur var í upp-
hafi, hefur verið prentaður einhvers staðar áður en hann var tekinn
upp í sálmabókina, en þar birtist hann fyrst í viðbætinum frá 1912.
Auk hins umrædda sálms er mér kunnugt um aðeins eitt Jjóð,
sem Gísli orti. Eru það eftirmæli um Hall fósturföður hans, sem dó
23. nóvember 1892, 87 ára að aldri. Er sami blærinn yfir því og sá,
er mest einkennir sálminn, sem sé trú á Guð og tilbeiðsla Ijóssins.
Kvæði þetta, sem til er ritað eigin hendi Gísla (nett og áferðarfalleg
skrift) er nú í eigu dóttursonar Halls og nafna, Halls Benedikts-
sonar, sem um langt skeið var starfsmaður við Mjólkursamlag K.E.A.
á Akureyri. Og hann er nú einn af þeim sára fáu, sem muna Gísla
í sjón, þótt óljóst sé. Hann minnist þess, að þá hann var enn í for-
eldrahúsum, Garðshorni á Þelamörk, kom á heimili þeirra hjóna
maður einn vel miðaldra, Gísli að nafni, vestan úr Skagafirði, og
var einkar kært með honum og móður hans, Jóhönnu Hallsdóttur.
Er augljóst, að Gísli hefur komið til að finna þessa fóstursystur sína.
Þetta var að vetri til og ekki síðar en 1894—95, ef til vill einu ári
fyrr. Eftir því sem Hall minnir, var Gísli vel meðalmaður á hæð,
beinvaxinn en ekki þrekinn, góðmannlegur á svip, með jarpt hár
og fremur andlitsfríður.
Fyrir tæpum tuttugu árum spurði ég einn aldraðan Skagfirðing,
nu látinn, um Gísla. Hann mundi hann allvel, en veitti mér litla
fræðslu utan þá, að hann muni hafa verið vandaður maður og trúr
í starfi, en stundum dálítið sérstæður í hugsun og háttum.
120