Skagfirðingabók - 01.01.1969, Page 190
SKAGFIRBINGABÓK
Þótt unnið væri hörðum höndum heima, var eigi að síður margt
sér til gamans gert. Rímur voru kveðnar á kvöldvökum allan vetur-
inn; grútarlampinn þá settur í dyrastaf milli hjónahúss og fram-
baðstofu. Þegar Guðmundur bróðir minn var farinn að stálpast,
kvað hann oft. Rímurnar opnuðu okkur undraheima, fjarsótt birta
fyllti hugskot barnsins. — Það var yfirleitt mikið kveðið og sungið
í Bjarnastaðahlíð. Ólafur afi minn var góður söngmaður. Hann var
um langt árabil forsöngvari í Goðdalakirkju, áður en orgel kom í
hana. Magnús í Gilhaga var fyrsti organistinn og varð forsöngvari
eftir Ólaf afa.
Húslestur var líka lesinn á hverju kvöldi að vetrinum — úr Vída-
línspostillu jafnan — og Passíusálmar sungnir á föstunni.
Ekkert blað var keypt að staðaldri nema Þjóðólfur. Eftir að Kvöid-
vökurnar fóru að koma út, voru þær keyptar og lesnar upp til agna.
Tveim sögufróðum konum man ég eftir, sem skemmtu okkur börn-
unum oft. Önnur hét Súlíma, fóstra Kristins Friðrikssonar, bróður
séra Friðriks. Kristinn var vinnumaður í Goðdölum, gekk á beitar-
húsin Dalkot, sem eru gegnt Bjarnastaðahlíð. Hann var einkar lag-
hentur. Við fjárgæzlu sína á beitarhúsunum hafði hann sér til dund-
urs að smíða ýmsa smágripi, sem hann síðan gaf okkur börnunum,
skar t. a. m. út fugla og margt annað dýrakyns handa okkur. Einu
sinni smíðaði hann handa okkur jólatré, hinn bezta grip, og finnst
mér miður, að það skuli nú vera með öllu glatað. -— Hin sögukonan
var María, móðir Rósu frá Breið, ákaflega fróð, en forn í háttum
og dálítið sérleg.
Nokkur bókakostur var á heimiiinu, og þóttu bækur gersemar.
Urðum við börn að handleika þær með varúð. Líklega hefur Hannes
Bjarnason, bróðir Þóreyjar á Hofi, móður Elínborgar skáldkonu,
verið fornbýlastur allra dalbúa á gamlar skræður. Hann dó í Litlu-
hlíð, og var látið í kistu hans heilmikið af bókum. Annar gamall
maður dó þar, Guðmundur Eyjólfsson. Hann var af Valadalsætt, hálf-
gerður förumaður. Sitthvað af bókum var látið í kistu hans, að sögn.
Þeir munu hafa viljað þetta sjálfir, karlarnir, höfðu bundið ást við
bækur sínar. — Móðir mín lézt árið 1906, og mun eitthvað af bók-
um hafa farið í kistu hennar. Þetta virðist hafa verið siður.
188