Skagfirðingabók - 01.01.1969, Page 205
HALLDÓR Á SYÐSTA-HÓLI
Halldór lagðist og lá ein tvö ár rúmfastur, þegar hann var orðinn
gamall. Bjóst enginn við, að hann myndi rétta við aftur, en síðara
sumarið hjarnaði hann bó það við, að hann vildi endilega klæðast,
en þá höfðu öll utanyfirföt hans verið gefin. Var farið á næstu bæi
og fengin föt. Klæddist Halldór og var á fótum um tíma. Síðar,
þegar vetraði að, þyngdi honum, og komst hann ekki á fætur framar.
Halldór lézt 29. janúar 1914, eins og fyrr segir. Var hann jarð-
settur að Felli, og fylgdu honum allmargir sveitungar hans til grafar.
FRÁ SÖLVA HELGASYNI
„SÖLVI Helgason lá síðasta sumarið, sem hann lifði, í Garði
(í Hegranesi). En hann var fluttur þaðan um haustið út í Sléttuhlíð.
Þar dó hann. Steinunn í Garði hirti um hann þá um sumarið. Var
einatt mikill uppgangur úr lungum á honum, og var hann látinn
hrækja í moldartrog. Baggi með myndum hans fylgdi honum og
spjaldið þar með, sem hann hafði undir, þegar hann teiknaði. Konu
eina í Nesinu dreymdi Sölva nokkru eftir að hann dó, og sagði hann
þá: ,Nú brást Guð mér illa'."
Ur minnisgreinum sr. Helga Konráðssonar í Héraðsskjalasafni Skag-
firðinga.
203