Tímarit Máls og menningar - 01.11.2012, Blaðsíða 83
Ti l m ó t s v i ð l í f s r e y n s l u n a
TMM 2012 · 4 83
Allt kom það nær,
í sífellu svolítið nær,
og loks með látum
„Hvörf“ merkir skil, umskipti, en í orði Þorsteins býr kannski líka það marg-
víslega „mannshvarf“ sem verður á einni ævi og hvernig sitthvað kemur þó
í leitirnar, stundum óvænt, áður en kemur að hinu endanlega hvarfi. Skáldið
yrkir á hverfanda hveli, þar sem tími og vera eru skyggnd og hugleidd. Í ljóð-
inu „Úr vegi“ (19) horfir ljóðmælandi á eigið líf og álasar sér kannski fyrir
„aðfaraleysi“; fyrir að hverfa eigin sjónum og annarra, uns „vindasálin“ ein
veit hvar hann leynist.
Þó beinir skáldið „hafsaugum“ sínum einnig að samtíma og samfélagi –
og í ljóðinu „Ljósin inni“ (21) er spurt hverskonar ljós það séu sem nái að
blakta „í sjálfhverfu, síngjörnu, / átfreku oflætishófinu.“ Þorsteinn kveður
hér óvenjufast að orði, en líklega er ekki vanþörf á, nú þegar margt í sam-
félagslegri orðræðu, ekki síst stjórnmálaumræðunni, virðist eiga að deyfa
okkur fyrir raunveruleika oflætishófsins; rétt eins og einungis hafi orðið
tæknileg bilun eða hiksti í vélinni sem hægt verði að lagfæra. Þorsteinn
hefur áður verið félagslega hvass í ljóðum sínum, þótt það hafi verið meira
áberandi framan af ferlinum. Matthías hefur einnig ort af hita um græðgi og
samfélagsupplausn í upphafi nýrrar aldar, ekki síst í ljóðaflokknum „Hruna-
dansinn“ frá árinu 2006. Skáldið sér hvert stefnir og bendir á að „virðing
okkar og sómi / er vandasöm fylgd við fjármagn og ofsagróða / þegar fegurð
asksins er líkust deyjandi hjómi“.7
Þegar Þorsteinn skrifar: „Það vorar um síðir, vonandi“ (í ljóðinu „Í
verunni“, 41), á hann áreiðanlega ekki við „endurreisn“ hins átfreka heims
þar sem hugtakið „samfélag“ fór halloka fyrir „eignarhaldsfélagi“. Hinsvegar
þurfum við að rannsaka „brunarústir“ og það sem í öskunni leynist, ekki síst
„undrið sjálft: / hið óbrunna, kvika hjarta“, en svo hljóða lokalínur ljóðsins
„Eftir eld“ (43).
En þeir eru margvíslegir, eldarnir á lífsleiðinni, og ekki auðfarið um þá
alla með ólaskað hjarta. Í ljóðinu „Áfram“ (31) fáum við svipmynd af þessu
ferðalagi. Fyrri hluti ljóðsins hljóðar svo og þarna endurómar ljóð Jóhanns
Gunnars Sigurðssonar, „Kveðið í gljúfrum“:
Áfram, áfram! Við mér vegmóðum taki
djöflasandar, meinvættir, mannskaðagil,
naumur kostur og náttmyrkrið eitt að þaki!
Friðarhuggun af stjörnu um stundarbil;
samfundir, svipir að baki …