Tímarit Máls og menningar - 01.11.2012, Blaðsíða 56
Þ o r s t e i n n Þ o r s t e i n s s o n
56 TMM 2012 · 4
Merking er lævís og lipur
Ég get útskýrt öll kvæði sem hafa verið fundin upp – og slatta af kvæðum til viðbótar
sem hafa ekki enn verið fundin upp.17
Skáldskapur slíkur sem Tíminn og vatnið verður reyndar ekki túlkaður nema með
töluverðri dirfsku og áhættu, að ekki sé sagt óskammfeilni […].18
Ég þykist nú hafa leitt rök að því að ekki sé hægt að taka alvarlega þann
skilning á Tímanum og vatninu sem algengur var á Íslandi í upphafi, að
bálkurinn væri merkingarlaus, enda væri það í samræmi við þau ein-
kunnarorð hans við frumbirtingu að ljóð ættu ekki að merkja neitt heldur
einungis vera.19 Ein ástæða er sem sagt sú að enska sögnin ‚mean‘ samsvarar
yfirleitt mismunandi sögnum í íslensku eftir því hvort gerandinn er orð/
skáldverk eða persóna: ljóð merkir en persóna meinar. Þetta er þó ekki
einhlítt því oft er ljóð persónugert. Einkunnarorðin heimila því ekki þann
skilning að ekki skuli leita merkingar í Tímanum og vatninu. Enda fjallar
„Ars Poetica“ ekki um það hvort heldur hvernig ljóð skuli flytja merkingu.
Veigamesta ástæðan er þó auðvitað sú að orð hafa merkingu, stök orð en
einkum orð í samhengi. Það er hinsvegar undir hælinn lagt hvort ljóðin vísa
út fyrir sig til veruleika sem við þekkjum eða skapa sinn eigin heim, sjálf-
stæðan veruleika. Merkingu hafa þau þó hvort heldur er. Á það má benda að
aldrei hefur verið dregið beinlínis í efa að ástarelegíurnar hefðu merkingu,
þematíska merkingu. Við erum hinsvegar óvön síðari skilningnum enda er
okkur tamast að skilja orðið merkingu sem ‚það sem við getum heimfært á
okkar reynsluheim‘ eða ‚það sem hægt er að endursegja‘ eða bara ,það sem
við skiljum‘, rétt eins og merking ljóðs væri af sama tagi og merking þess sem
sagt er við okkur í tveggja manna tali.
Auk merkingar einstakra orða getum við talað um merkingar segða og
setninga, merkingar erinda, heilla ljóða og bálksins í heild. Eins og fram hefur
komið lít ég svo á að heildarmerkingu sé ekki að finna í Tímanum og vatninu
(nema menn telji umsögn á borð við kveðjuljóð, svanasöngur duga til þess).
Augljós dæmi um að orð hafi ekki raunsæislega merkingu eru mörg litarorðin
í flokknum, sem stuðla umfram allt að hughrifum, og iðulega hafa bæði ein-
stök erindi og ljóð í heild sinni ekki merkingu eða inntak sem hægt er að
rekja með öðru orðalagi. Slík ljóð hafa hinsvegar það sem ég kalla bókstaflega
merkingu, og á ensku mætti tala þar um literal meaning og non-referential
poetry. Dæmi úr ellefta ljóði væri: „Og hvolfþak hamingju minnar er úr hvítu
ljósi hinnar fjarlægu sorgar fljótsins.“ – Ljóð af þessu tagi hafa áhrifsgildi en
hafna eftirlíkingu og eru sjálfstæðir heimar, sjálfum sér nógir.
Einhver innibyrgð orka býr í öllum góðum ljóðum, orka sem lesendur
leysa úr læðingi og hrífast af. Hún getur stafað af mikilvægum boðum sem
ljóðin flytja, nýstárlegum sannleik, ellegar af listilegri beitingu tungumálsins
svo að tvennt sé nefnt. Í fyrra sinnið má yfirleitt rekja efni ljóðanna, þó alltaf