Tímarit Máls og menningar - 01.11.2012, Blaðsíða 116
D ó m a r u m b æ k u r
116 TMM 2012 · 4
lyfja, en þó umfram allt hinni ríku
sjálfseyðingarhvöt sem ungmennin fjög-
ur búa yfir. En hvað af því eru þá
ofskynjanir? Húsið og íbúar þess, vænt-
anlega, og þar með sú lausn að hinar
óþekktu óvættir séu afleiðingar tilrauna
hans eða sifjaspellsins, en það kemur
ekki í veg fyrir að fjórmenningarnir far-
ast (þó Vigdís lifi af er hún illa sködd-
uð). Eru þau þá fórnarlömb hvert ann-
ars? Eða sjálfra sín – eða græðginnar,
hrunsins og þess samfélags sem skapaði
fullkomnar aðstæður fyrir þetta? Í því
ljósi má sjá landið sem tákn fyrir þjóð-
ina og hvorttveggja sem öfl eyðilegging-
ar. Vissulega bendir ýmislegt til þess að
túlka megi söguna á þennan hátt, og
afgreiða hana þannig sem táknsögu um
hrunið, en slíkar afgreiðslur eru óþarf-
lega vinsælar þegar kemur að bók-
menntagreinum afþreyingarinnar, sér-
staklega vísindasögum, fantasíum og
hrollvekjum. Enda hafa höfundar slíkra
oft nýtt sér formúlur formanna til að
koma á framfæri boðskap.
En það er hægt að koma boðskap á
framfæri án þess að skapa honum ein-
feldningslegan táknbúning og fæst
þeirra formúluverka sem ná ‚bók-
menntalegu‘ máli fella sig á einfaldan
hátt að táknrænni yfirfærslu af þessu
tagi. Enda væri þá ekki mikið varið í
þau í sannleika sagt. Það sem gerir
hrollvekjuna að því eðla formi sem hún
er, er einmitt hæfileiki hennar til að
hafa hamskipti og bregða sér í allra
kvikinda líki. Þetta hefur verið mikil-
vægur þáttur hennar allt frá upphafi í
gotnesku skáldsögunni á átjándu öld.
Strax þá komu fram sögur sem skiptu
sér í grófum dráttum í tvo flokka; ann-
arsvegar eru sögur sem gefa sér að hið
yfirnáttúrulega sé til, og hinsvegar
sögur sem hafna hinu yfirnáttúrulega
og skýra alla dularfulla atburði út á
raunsæjan hátt. Bent hefur verið á að
slíkar skýringar séu iðulega nokkuð
hæpnar, en það kemur ekki í veg fyrir að
búlgarski bókmenntafræðingurinn
Tzvetan Todorov hafi smíðað kenningu
byggða á þessum aðskilnaði.8 Í leit sinni
að eðli fantasíunnar eða hins fantast-
íska, kemst Todorov að þeirri niður-
stöðu að það búi í efanum, hikinu sem
kemur á lesandann – og / eða er byggt
inn í verkið – að lestrinum loknum. Ef
sagan endar þannig að lesandi getur
ekki verið viss um hvað í raun og veru
gerðist er kjarna fantasíunnar náð að
mati Todorovs.
Og einmitt þannig er Hálendið. Þó
það geti verið þægileg lausn að túlka
verkið sem táknsögu um gróðærið og
hrunið er sú skýring of billeg – án þess
þó að vera fyllilega óréttmæt. Það er
einfaldlega svo margt annað sem sagan
tekur til, meðal annars fyrrnefnd tök á
og átök við íslenska náttúru og íslenska
menningu. Vissulega má segja að átökin
um íslenska náttúru og hin íslenska
menning eins og hún birtist í þjóðarsál-
inni tengist græðgisvæðingunni og
kreppunni á ýmsan hátt, en hvort-
tveggja hefur þó víðari skírskotanir. Og
það eru þessar víðari skírskotanir sem
koma í veg fyrir að sagan felli sig fylli-
lega að einföldum útskýringum;
Hálendið má fullt eins lesa sem hreina
hrollvekju með kreppuívafi (hrollvekjan,
líkt og glæpasagan, hefur löngum tekið
á ýmsum þjóðfélagsmálum), og sem
hrollvekjandi myndhverfingu um
kreppuna. Hver er til dæmis staða
Hrafns innan sögunnar? Í ljós kemur að
hann er illa skaddaður – er hann mögu-
lega sökudólgurinn, sá sem stendur á
bakvið alltsaman? Hann er bílstjórinn
og það er hann sem villist út af vegin-
um. Og hvað með hjónin á bænum?
Gætu þau ekki verið draugar, eða fólk
sem hefur gengist á hönd tröllum eða
álfum eins og gerist í þjóðsögunum?