Tímarit Máls og menningar - 01.11.2012, Blaðsíða 55
A ð l e s a T í m a n n o g va t n i ð I I
TMM 2012 · 4 55
Þetta er torþýtt en ef til vill má útleggja það svo: Ljóðið er hluti af yrkisefninu
en ekki um það. Eða með öðrum orðum: Ljóðið er veruleiki í sjálfu sér en
ekki umfjöllun um veruleika. (Í framhaldi mætti kannski segja: Ef það
nægði að ljóð væru um eitthvað þyrftum við ekki ljóð.) Þetta er fagurfræði
hins sjálfumnæga ljóðs sem rík var í symbólismanum, og mátti einnig heita
viðtekin í nýrýninni og þeirri skáldskaparstefnu sem henni var samfara.
Þetta er sömuleiðis að verulegu leyti fagurfræði Tímans og vatnsins.
Eins og fram kemur í ljóðlínum MacLeish „A poem should be equal to /
Not true“ þá á ljóð umfram allt að vera heterokosmos, annar og sjálfstæður
heimur.16 Segja má að það gildi um mikinn hluta Tímans og vatnsins. Og
ekki er hægt að gera útdrátt úr bálkinum. Það er einkenni slíkra ljóða að þau
eru ekki eftirlíking ytri veruleika heldur búa til sinn eigin veruleika.
Ekki munu allir verða mér sammála um þennan skilning á eðli ljóða-
flokksins (enda er hann svo sem ekki allur á eina bókina lærður). Hver
lesandi virðist finna í honum sinn tíma og sitt vatn, og skilja hann jafnvel
á þann veg að hann sé ástarljóð til konu sem hægt sé að nafngreina. En
niðurstaða mín af þessari athugun á einkunnarorðunum verður sem sagt
sú að grunnmerking þeirra sé: Ljóð ætti ekki að flytja meiningar eða boða
mönnum sannindi heldur kappkosta að vera ljóð. Táknmyndin skal vera í
forgrunni, táknmiðið skiptir minna máli. Það mætti svo kannski umorða á
þá leið sem Sigfús Daðason ýjar að: Ljóð sem einungis flytur skoðanir, þar
sem inntakið er allt, er ekki ljóð.
Ég tel að einkunnarorð Tímans og vatnsins hafi stuðlað að misskilningi
á ljóðaflokknum í heild, að minnsta kosti fyrst í stað. Ætla má að Steinn
hafi fjarlægt orðin vegna þess að hann hafi ekki verið sáttur við þá ein-
hliða túlkun og jafnvel fordæmingu á flokknum sem orðin leiddu til. Hér
verður haft fyrir satt að merkingu sé vissulega að finna í ljóðaflokknum,
mikilvæga merkingu, og verður nánar vikið að því í þættinum hér á eftir.
Að sönnu eru margar óræðar myndir í ljóðaflokknum og um flest kvæðin
má segja að hæpið er að reyna að umorða þau eða endursegja, en það gildir
nú um mikinn hluta nútímaljóða. Umfram allt verður þó að taka vara fyrir
því að skilja merkingu ljóða þeim þrönga skilningi að hún sé gáta sem bíði
ráðningar.
***