Tímarit Máls og menningar - 01.11.2012, Blaðsíða 86
86 TMM 2012 · 4
Bergur Ebbi Benediktsson
Mælanlegir yfirburðir
Nokkur orð um spegla
Í hryllingsmyndum er algengt að nota spegla til að búa til óþægilegar aðstæður.
Kona stendur við baðherbergisvask og lokar skáp fyrir framan sig. Á skáphurðinni er
spegill og skyndilega sjáum við hrottalegan hnífamann í speglinum. Mér finnst
óþægilegt þegar speglar eru sýndir í kvikmyndum því þá getur verið stutt í skyndi-
lega bregðu. Óhugnanlegast af öllu er þegar spegilmynd svíkur. Karl stendur fyrir
framan spegil og horfir á sjálfan sig. Svo bregður hann sér frá en mynd hans er enn í
speglinum starandi tómum augum fram á við. Þá hefur spegilmyndin öðlast sjálf-
stætt líf sem frummyndin ræður ekki við.
Hvernig tilfinning ætli það sé? Að ganga um göturnar en vita að heima, inni á
baðherbergi, stari spegilmynd þín tómum augum út í loftið? Ég held að það sé
óþægileg tilfinning en hún venjist – eins og flest.
Spegilmynd heillar þjóðar er ekki hægt að koma fyrir í eiginlegum spegli. Slíka
spegilmynd er fremur að finna í verkum listamanna, spjalli fólks sem þekkist lítið, til
dæmis í fermingarveislum eða fjölmiðlum. Fjölmiðlar, eða öllu heldur það sem í
þeim kemur fram, eru spegilmynd okkar. Gagnrýni á störf fjölmiðla er á endanum
alltaf gagnrýni á okkur sjálf.
Atburðarás sunnudagsins 30. september 2012
Sunnudagurinn 30. september 2012 var ósköp venjulegur dagur á Íslandi. Hvað
veður snerti var hann reyndar með miklum ágætum. Sólin skein víðsvegar um land-
ið, hitinn náði allt að 10 stigum og rauðgul haustlaufin bærðust ekki í logninu. Ég
veit ekki hvað fólk gerði þennan dag. Sumir þvoðu þvott eða tóku til, aðrir fóru í
golf, sumir lágu veikir í rúminu. Þetta var ósköp venjulegur dagur í lífi þjóðarinnar.
Það var í sjálfu sér ekkert að frétta.
En fréttamenn stóðu samt vaktina þennan dag, eins og alla aðra daga, þó það
stæði lítið upp úr í fréttum. Þegar komið var fram á kvöld kom þó eitthvað nógu
merkilegt fram til þess að þrír af helstu fréttamiðlum landsins birtu allir sömu frétt-
ina.1
Mbl.is reið á vaðið kl. 19.03 með þessa stílfærðu fyrirsögn:
„Íslendingar „stærstir“ í Evrópu“
– Ef fólk las aðeins fyrirsögnina var ekki ljóst um hvað fréttin snérist en 48 mínútum
síðar birtist þessi fyrirsögn á visir.is:
„Íslenskir karlmenn með stærsta liminn í Evrópu“
Á d r e p u r