Tímarit Máls og menningar - 01.11.2012, Blaðsíða 96
Á d r e p u r
96 TMM 2012 · 4
Ég leit hróðugur á kunningja minn, stoltur yfir rökfestu minni og réttsýni. En í
staðinn fyrir hól eða hvatningu sagði hann blátt áfram að siðferðið væri ekki verk-
efni fyrir skólana.
„Hvað meinarðu? Áttu við að skólarnir eigi bara að láta sér siðferðið í léttu rúmi
liggja.“
„Nei, það sagði ég ekki. En siðferðið er ekki verkefni, og þar með ekki verkefni
fyrir skólana. Verkefni er eitthvað sem á sér upphaf og endi. Siðferði þjóðarinnar er
ekki eitthvað sem við byrjum á, t.d. eftir helgi, og klárum okkur svo af á þrem mán-
uðum, eða tveim árum, eða hvaða öðrum tíma sem er. Ég veit að fólk talar svona um
endurreisn eftir hrun, en það er þá eins og hvert annað bull. Siðferðið er lífið sjálft,
og lífið er ekki verkefni.“
Ég var rasandi á þessum málflutningi, mér virtist hann örugglega vitlaus en áttaði
mig ekki í fljótu bragði á því í hverju vitleysan lægi. Ég maldaði í móinn: „En er lífið
ekki verkefni? Er það ekki mikilvægasta verkefni hverrar manneskju að lifa vel?“
„Gott og vel,“ sagði kunningi minn og eitt augnablik virtist hann hafa náð áttum,
en svo hélt hann áfram. „Ef lífið er verkefni, þá byrjar þetta verkefni líklega við fæð-
ingu og lýkur þegar maður hrekkur uppaf. Gefum okkur þetta. En hver er þá
afraksturinn af þessu verkefni? Er einhver útkoma? Er útkoman úr verkefninu „hið
góða líf“ rotnandi skrokkur? Ef hið góða líf er verkefni í þessum skilningi, þá ætla ég
að finna mér eitthvað annað að gera.“
Kunningi minn þagnaði um stund, horfði á mig spurnaraugum, en hélt svo
áfram. „Sjáðu til, hér er smá líking til útskýringar. Þegar bóndi ræktar tún þá þarf
hann auðvitað að ljúka mörgum verkefnum. Snemma vors ber hann áburð á túnið,
svo þegar vel er sprottið þá slær hann grasið, síðan bindur hann heyið í bagga og
pakkar því í plast. Þetta eru allt verkefni. En bóndinn getur ekki látið grasið spretta.
Ef maður er bóndi þá þarf maður að vinna mörg verkefni, en ekkert þeirra er: Að
láta grasið spretta. Á sama hátt hafa skólarnir mörg verkefni að vinna en ekkert
þeirra er: Láta nemendur hafa viðunandi gildismat. Gildismat nemenda er einfald-
lega ekki verkefni fyrir skólana. Siðferðið er ekki verkefni, það er lífið sjálft.“
„Hvað meinarðu? Eiga skólarnir ekki að gera neitt til að hafa áhrif á gildismat
nemenda?“ andæfði ég og gat varla trúað því sem ég heyrði.
„Jú, ég sagði það ekki. Ég sagði að gildismat nemenda væri ekki verkefni fyrir
skólana, rétt eins og spretta grassins er ekki verkefni fyrir bóndann. Auðvitað gerir
bóndinn margt til að grasið spretti þótt grassprettan sem slík sé ekki verkefni.“
Ég áttaði mig á því að ég hafði hlaupið á mig. Ég hafði vissulega heyrt það sem
kunningi minn sagði, en í ákafa mínum hafði ég snúið því á haus. Kunningi minn
hélt áfram.
„Það er ekki nóg með að gildismat nemenda sé utan seilingar skólanna eins og
grassprettan er utan seilingar bóndans. Vandinn er meiri. Við teljum okkur trú um
að nemendur eigi að vera gagnrýnir, sjálfstæðir, sjálfráðir, lýðræðislegir borgarar, og
hvað þetta nú heitir allt saman sem aldrei var minnst á fyrir hrun en er nú orðið
helsta tungustáss fólks sem finnst gaman að tala. Stöldrum aðeins við þetta lýðræðis-
hjal um skólana. Það þýðir að kennarinn getur ekki nema með mjög almennum
hætti ákveðið hvað sé æskileg útkoma úr menntunarferlinu. Málið er að nemendur
eru ekki hey sem er bundið í bagga og pakkað í plast þótt sumir virðist kannski
halda það. Kennarinn er svolítið eins og bóndi sem getur ekki ákveðið sjálfur hvað