Tímarit Máls og menningar - 01.11.2012, Blaðsíða 140
D ó m a r u m b æ k u r
140 TMM 2012 · 4
listina það tækifæri sem hún veitir
okkur til að hverfa inn í vitund annarr-
ar manneskju, máta okkur við hugsanir,
tilfinningar og upplifanir án þess að
meginatriðið sé frásögn af atburðum og
samskiptum fólks líkt og í sagnaskáld-
skap. Sökum þess að ljóðlistin er gjarn-
an list hins óræða og hálfsagða er
kannski enginn lestur jafn skapandi og
lestur ljóða. Sigurði Pálssyni er skapandi
hlutverk lesandans mjög hugleikið. Og
hann hefur á ferli sínum ort á magnað-
an hátt um lestrarnautnina. Í Ljóðorku-
flokknum lýsir hann til dæmis því í
ljóðinu Í skógarjaðrinum IV hvernig
ljóðabók Þorsteins frá Hamri Lángnætti
á Kaldadal reyndist honum öflugur
andlegur bakhjarl síðasta vetur hans í
menntaskóla og hann vottar virðingu
sína ýmsum ljóðskáldum sem hafa haft
áhrif á hann.
Skáldskapur Sigurðar Pálssonar er á
margan hátt lofgjörð um þann skapandi
undramátt sem getur búið í skynjun,
upplifun og íhugun. Hann er hylling
andlegs lífs, þess unaðar sem frjó og
skörp hugsun getur veitt. Í Ljóðorku-
flokknum finnur lesandinn hvatningu
til að dýpka innsæi sitt, leggja sig fram
um að reyna að sjá það sem skiptir máli.
Þar er talað um hvernig hægt sé að horfa
þannig að svarthvítar myndir öðlist lit,
teikning hreyfist af sjálfu sér. Kannski
sprettur innilegasta gleðin yfir fegurð-
inni af því að sjá undrunarefnin þar sem
síst mætti ætla að þeirra væri von, koma
auga á hið dularfulla í hinu augljósa. Í
hinum áhrifamiklu þakkarorðum sem
skáldið beinir að æðri máttarvöldum og
vísað er í hér að framan er á yfirborðinu
ekki þakkað fyrir neinn beinan árangur,
ávinning eða sigur, heldur aðeins það að
hafa fengið að sjá og skynja. Skáldið
segir hreinlega: þakka þér fyrir að sýna
mér dýrðina … En kannski er einmitt
það að veitast slík sýn og vera fær um að
meta hana að verðleikum einn mesti
ávinningurinn, stærsti sigurinn.
Sigríður Albertsdóttir
Viska kattarins
Vigdís Grímsdóttir: Trúir þú á töfra? JPV-
útgáfa 2011
Saga bernsku minnar líður undir gler-
hvelfingunni innan múrsins og eftir á að
hyggja hefði ég ekki viljað missa af neinu;
það er ég viss um núna þótt ég hafi ekki
alltaf hugsað þannig þegar ég var stelpa.
(9)
Á þessum orðum hefst sagan. Hún er
sögð í 1. persónu út frá sjónarhorni
ungrar stelpu í þorpi sem er umlukið
harðgerðum múr og lokað af undir gler-
kúpli. Þorpið liggur í djúpum dal ein-
hvers staðar á Íslandi en hvar það er
nákvæmlega staðsett veit enginn, ekki
einu sinni fólkið sem býr í þorpinu.
Sumir hafa verið narraðir inn í þorpið
með gylliboðum, aðrir koma þangað
nauðugir viljugir. Múrsins gæta verðir
sem sjá til þess að enginn komist til eða
frá þorpinu en öllu stjórna óþekktir
aðilar sem virðast vera að gera tilraunir
með íbúana. Þeir úthluta hverjum og
einum ákveðið hlutverk og ef viðkom-
andi stendur ekki undir hlutverki sínu
er voðinn vís. Í þorpinu er verið að æfa
upp leikrit, sem enginn veit um hvað
snýst, en eins og í öllum „leikritum“
verða „leikararnir“ að sjá til þess að ekk-
ert fari úrskeiðis í sínu „hlutverki“.
Snemma lærir fólkið, líka stelpan, að
læðast meðfram veggjum og segja sem
minnst. En það hugsar og skráir niður
minningar sínar sem eru að lokum, líkt
og frelsið, teknar frá því og læstar niðri í