Tímarit Máls og menningar - 01.11.2012, Blaðsíða 82
Á s t r á ð u r E y s t e i n s s o n
82 TMM 2012 · 4
verður maður að deila með dauðanum, sem svarar manni ekki og er ósýni-
legur. Samt er hann „eina staðreynd / lífsins“ (80). Hann er á sinn hátt sem
„drauganet guðs“, svo gripið sé til magnaðrar myndar sem Matthías notar
annarstaðar (69). Það er net sem hefur flotið burt og týnst en heldur áfram
að veiða. Sveiflurnar í huga og minni ljóðmælandans birtast vel í eftirfarandi
tvíhendum sem standa í mótsagnakenndu innbyrðis sambandi (67):
Ég man þig ekki eins og efni standa til,
þú ert svo langt í burtu og handan við dauðans skil.
Ég hugsa um þig án afláts, þú ert við hjarta mitt,
hver endurtekur dauðann og þarmeð lífið sitt?
Ég leita yfir fljótið en finn þig ekki þar
og fyrst að sú er raunin þá spyr ég dauðann
Hvar?
Sá sem hér þolir ekki við og leitar yfir fljótið, í ríki dauðans, minnir á Orfeif
sem samkvæmt goðsögninni sótti Evrídís sína til heljar en missti hana
svo aftur. Þessi ferð, fram og aftur yfir fljótið, er líkt og hjartsláttur í bók
Matthíasar, eða grunntónn á lýrustreng, svo vísað sé til hins orfeifska hljóð-
færis. Og þá stenst ég ekki mátið að nefna streng sem Þorsteinn sækir sér í
goðheima og kann á sína vísu einnig að vera af orfeifskum toga, en jafnframt
er vísað til hugljúfra lína í þýðingu Jóns Þorlákssonar á Paradísarmissi Mil-
tons: „Blíður er árblær, / blíð er dags koma, / fylgja henni tónar / töfrafullir /
árvakra fugla, / sem er eyrna lyst.“6 Ljóð Þorsteins nefnist „Hér stilltu guðir
streng“ (37):
Hér stilltu guðir streng;
hann struku dægrin blíð;
þann óm til eyrna bar
mér árblær forðum tíð.
Ég nem hann ljósar nú
er nálgast rökkrið svalt.
Svo fer einn dag að flest
mun fullnað, jafnvel allt.
Það er morgunn í Edensgarði Miltons en rökkrið nálgast hjá Þorsteini og það
dýpkar og skerpir skynjunina, jafnvel sjálfur árblæinn er numinn „ljósar“
nú, þegar styttist í fullnustu. Þetta er hljómfagurt ljóð og það á raunar við
um mörg ljóð skáldanna tveggja: lýríkin leikur þeim á tungu, en þetta grísk-
ættaða orð er vitaskuld dregið af hljóðfæri Orfeifs.
Í ljóðinu um strenginn tengjast sjónbaugarnir í ljóðabók Þorsteins, fortíð
og framtíð – báðar virðast hraða sér til ljóðmælandans, svo sem segir í ljóð-
inu „Hvörf, sjónmál, hafsaugu“ (18):