Tímarit Máls og menningar - 01.11.2012, Blaðsíða 131
D ó m a r u m b æ k u r
TMM 2012 · 4 131
mein og fortíð“, bokmenntir.is, sjá: http://
www.bokmenntir.is/desktopdefault.aspx/
tabid-3409/5648_read-29199/.
5 Sigmund Freud, „Hið óhugnanlega“, Listir og
listamenn. Ritgerðir, Reykjavík: Hið íslenzka
bókmenntafélag, 2004, bls. 191–233, hér bls.
212–214.
6 Sigmund Freud, „Inngangur“, Psychoana-
lysis and the War Neuroses, London o.v.: The
International Psycho-Analytical Press, 1921,
bls. 1–4, hér bls. 2–3.
7 Fríða Björk Ingvarsdóttir, ritdómur fluttur í
Víðsjá í Ríkisútvarpinu 25. nóvember 2011,
sjá: http://www.ruv.is/frett/bokmenntir/
domur-um-jojo.
Páll Valsson
Sauðlauks upp
í lygnum dali
Sölvi Björn Sigurðsson: Gestakomur í
Sauðlauksdal. Sögur Reykjavík 2011.
Fullt heiti þessarar skáldsögu er reyndar
ívið lengra en hér að ofan greinir: Dálít-
ill leiðarvísir um heldri manna eldunar-
aðferð og Gestakomur í Sauðlauksdal
eður hvernig skal sína þjóð upp reisa úr
öskustó. Þetta er í stíl og anda sögutím-
ans, upplýsingaraldarinnar, þar sem lýs-
andi titlar voru ráðandi; áform bókar og
markmið skyldu vera skýr og ljós í titli,
en líka sett fram af tilheyrandi auðmýkt
því þótt upplýsingarmenn hafi leitast
við að færa út mörk mannlegrar við-
leitni og leitt skynsemina til öndvegis,
þá voru þeir enn þeirrar meginskoðunar
að öll okkar viska kæmi frá guði. Það
beið 19. aldar og svo þeirrar 20. að tak-
ast á við trúarbrögðin. Á þeirri 18. voru
Guð og konungurinn enn þau ljós sem
skærast lýstu á mannlífið. Þannig litu
helstu upplýsingafrömuðir Íslands á
hlutina og þar á meðal söguhetjur þess-
arar bókar, séra Björn Halldórsson í
Sauðlauksdal og mágur hans, Eggert
Ólafsson, sem Jónas Hallgrímsson taldi
„mesta mann sem Ísland hefur alið“.
Það álit var auðvitað ekki út í bláinn,
fremur en annað frá Jónasi. Eggert var
hans stóra fyrirmynd, fjölhæfur nátt-
úruskoðari og skáld, hugdjarfur og dug-
legur, baráttumaður gegn bábiljum og
gekk fyrstur manna á Heklu, samdi hag-
nýt rit sem öll áttu að stuðla að bættu og
fegurra mannlífi og menningu á Íslandi.
Um Eggert yrkir Jónas líka sitt metnað-
arfyllsta kvæði, sjálf Hulduljóð þar sem
hann lætur Eggert stíga marvotan upp
úr þeim Breiðafirði sem hann drukkn-
aði í, ganga á land og spjalla við náttúr-
una sem var honum svo hugstæð: „Smá-
vinir fagrir, foldarskart …“
Og hvert skyldi Jónas leiða Eggert í
Hulduljóðum nema í Sauðlauksdal þar
sem Björn Halldórsson, mágur Eggerts,
og Rannveig systir hans höfðu búið
slíku fyrirmyndarbúi að Eggert hafði
ort um heilan Búnaðarbálk. Ekki ein-
ungis voru þar mærðir búskaparhættir
Björns mágs og tilraunir með káljurtir
og kartöflur, heldur líka hið góða og
fagra mannlíf sem þar þreifst, „af því að
hjónin eru þar/ öðrum og sér til glað-
værðar.“ Um mannlífið í Sauðlauksdal
orti Eggert líka Lysthúskvæði: „Undir
bláum sólarsali, Sauðlauks upp í lygnum
dali, fólkið hafði af hanagali, hversdags-
skemmtun bænum á, fagurt galaði fugl-
inn sá …“, sem stundum er enn sungið,
þótt kveðskapur Eggerts hafi almennt
elst misjafnlega vel. Nafn sitt dró kvæð-
ið af lysthúsi því sem Björn reisti
skammt frá bænum, að erlendum sið og
sýnir bæði hversu innblásinn hann var
af framandi menningu í víðum skiln-
ingi sem hann hafði kynnt sér og hversu
einbeittur og staðráðinn hann var í að
uppfræða landa sína.