Hugur - 01.01.2015, Page 16
16 Jón Ásgeir Kalmansson ræðir við Pál Skúlason
Ertu að tala um einhvers konar handanhyggju, að til sé annar heimur handan þessa
heims, hins skynjanlega heims, s.s. heimur hins skiljanlega, sem liggur þessum til
grundvallar?
Nei, reyndar er það ekki nákvæmlega mín hugmynd, en það eru nokkrir frum-
spekilegir kostir í stöðunni. Ein tilgátan væri sú að handan við þennan miklahvell
sé annar heimur af allt öðru tagi en við getum ímyndað okkur og að hann sé
andlegur, hvað sem það nákvæmlega merkir að lýsa hinu andlega í þessu sam-
hengi? Síðan geta menn hugsað sér þennan heim handan við miklahvell. Menn
gætu hugsað sér hann sem handanheim guðlegrar veru eins og við þekkjum úr
kristninni, þar sé guð sem sé skapari himins og jarðar og að hann haldi ákveðnum
tengslum við sköpunarverk sitt. Þennan óendanlega sköpunarmátt köllum við
sem sé gjarnan guð. Margir vilja að við tilbiðjum þennan guð sem það vald eða
afl sem drottnar yfir öllu sem er. Enn annar frumspekilegur kostur er sá að guð-
dómurinn sjálfur splundri sér í alheiminum ef svo má segja, það er að segja, að guð
sjálfur sé þessi veruleiki sem skapast við miklahvell, raunverulega þannig að guð
sé allt í öllu. Þá værum við komin með einhvers konar algyðistrú sem getur tekið
á sig margar ólíkar myndir.
Hvaða máli skiptir það að þínum dómi hverja af þessum heimsmyndum við aðhyll-
umst?
Ég held að séu tvær meginástæður fyrir því að þetta skiptir verulegu máli. Fyrri
ástæðan er sú að við virðumst vera þannig gerð sem hugsandi verur að við komumst
ekki hjá því að reyna að skilja sjálf okkur og veruleikann og heiminn og höfum
eiginlega eins og fengið það verkefni að leitast við að skilja veruleikann. Hin
ástæðan er nátengd þessari fyrri, nefnilega, að við getum ekki skipulagt líf okkar á
hagnýtan hátt hér í heiminum nema við gerum okkur nokkuð skýrar hugmyndir
um það hvernig heimurinn er, hvernig við sjálf erum, hverjir eru veikleikar okkar
og styrkleikar, hvaða mistök við gerum og hvernig við getum hugsanlega bætt
ráð okkar ef við höfum gert vitleysu. Í mínum huga eru hin fræðilega spurning
um heiminn og veruleikann og hin hagnýta spurning um það hvernig við getum
komið okkur fyrir á jörðinni órofa tengdar og mjög brýnt, ekki síst nú á síðustu
tímum, að þessi tvenns konar viðhorf, hið fræðilega og hið verklega eða hagnýta,
séu tvinnuð saman með miklu áhrifaríkari hætti en við höfum gert til þessa.
Það hefur þá mikla praktíska þýðingu hvort við aðhyllumst nauðhyggju, svo dæmi sé
tekið, eða gerum ráð fyrir því að frelsið sé mögulegt? Ertu að segja að þessar almennu
hugmyndir um hvernig heimurinn er liggi siðferði okkar til grundvallar og það sé eig-
inlega lífsspursmál hvernig við svörum þessum almennu heimspekilegu spurningum?
Já, ég tek algerlega undir þetta og get ekki orðað það betur en þú varst að gera.
Því miður hafa orðið ákveðin rof á milli vísinda og heimspeki sem hafa valdið
því að margir mjög góðir og merkir vísindamenn hafa eins og misst tengslin
við heimspekina og frumspekina, verufræðina og siðfræðina, misst tengslin við
þessi grunnsvið heimspekinnar og einangrað vísindin, mér liggur við að segja,
Hugur 2015-5.indd 16 5/10/2016 6:44:56 AM