Hugur - 01.01.1988, Qupperneq 94
HEIMSPEKI OG FORNMENNTIR Á ÍSLANDI Á 17. ÖLD
HUGUR
yfir Sjálandi, sem kom því til leiðar að Brynjólfur var ráðinn
konrektor við latínuskólann í Hróarskeldu árið 1632, í kjölfar
næsta óvenjulegs atburðar, sem greint er frá í nokkrum
heimildum. Svo virðist nefnilega sem Brynjólfur hafi kynnt
Grikkja nokkum, Romanus Nicephorus að nafni, fyrir H.P.
Resen og að Grikkinn hafi hælt Brynjólfi fyrir góða grísku-
kunnáttu. Greiðann launaði Romanus Nicephorus með því að
ræða mál Brynjólfs við Resen og í kjölfarið fékk Brynjólfur
konrektorsstöðuna sem þá var laus. Meistaranafnbót í heim-
speki hlaut hann 1633 og kenndi í Hróarskeldu til ársins 1638
þegar hann hugðist leggja land undir fót til frekara náms og var
búinn að kría sér út styrk til þess. Er skemmst frá því að segja
að í stuttri ferð til íslands sumarið 1638 var hann kjörinn
biskup í Skálholti þvert ofan í allar óskir og áætlanir. Veturinn
eftir sat hann í Höfn og beið svars við undanfærslubréfi sínu,
en í því segist hann hvorki vera guðfræðingur né lögfræð-
ingur, heldur hafi hann einkum lagt sig eftir báðum fom-
málunum, heimspeki og skáldskaparfræðum og kveðst umfram
allt vera skólamaður og kennari. En hinir lærðu á konsistóríinu
kváðu upp úr með það að hann skyldi vígður einmitt af því
hann væri skólamaður og kennari, því að skólinn í Skálholti
hefði mikla þörf fyrir slíkan mann. Brynjólfur varð því að
hverfa aftur til íslands.
Ramus og rökræðulist
Heimkominn til íslands hófst Brynjólfur handa við tvennt.
Annars vegar að kenna rökfræði í Skálholtsskóla, hinsvegar að
aðstoða danska sagnfræðinginn Stephan J. Stephanius, sem var
góðvinur hans, við að semja skýringar við Danasögu Saxa. í
Skálholtsskóla gerði hann breytingar á rökfræðikennslunni og
las sjálfur fyrir „þrisvar í viku explicationem et comment-
arium yfir Petri Rami dialecticam" eins og Torfí Jónsson orðar
það. Skýringarritið yfir Ramus sem varðveitt er byggir á þess-
um fyrirlestrum. Það er 281 blað (562 bls.) að stærð í fjór-
blöðungsbroti, en þrátt fyrir það nær ritið aðeins yfir fyrstu 10
kaflana í fyrri bók Rökræðulistar Ramusar. Einnig er Ijóst að
ætlunin hefur verið að spanna alla Rökræðulistina, því að
Brynjólfur hefur hugsað sér tvær bækur skýringa, sína fyrir
92