Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga - 01.01.1941, Blaðsíða 100
76
TÍMARIT ÞJÓÐRÆKNISFÉLAGS ÍSLENDINGA
Brátt komst þó Jón í allgóð efni,
enda veitti honum ekki af því, því
hann var stöðugt að hjálpa fólki,
sem flutti inn í bygðina, sveitungum
sínum, er komu alslausir og leituðu
eðlilega til hans. Voru allir bygð-
arbúar yfirleitt hjálpsamir við ný-
komendur, en þó mun Jón í því hafa
skarað fram úr öllum. Bæði á
fyrstu árum og síðar tók hann á
móti heilum fjölskyldum, fæddi þær
um lengri eða skemmri tíma og
bjálpaði þeim til að byrja búskap.
Hefir hjálpsemi hans verið mjög
rómuð af öllum, sem til þektu, og
þó eigi um skör fram.
Jón var ekki aðeins mikill dugn-
aðarmaður og hjálpsamur, heldur
líka forgöngumaður margra fyrir-
tækja, sem til aukinnar menningar
innan bygðarlagsins horfðu. Hann
eignaðist mikið land og kom upp
stóru búi. Hann var með fyrstu
hvatamönnum að því, að smjörgerð-
arhúsi var komið upp í bygðinni.
Var hlutafélag stofnað í þeim til-
gangi árið 1902 og átti Jón sæti í
stjórnarnefnd þess fleiri ár. Einnig
var hann einn þeirra, sem gengust
fyrir því að hið fyrsta samkomuhús
bygðarinnar var reist. Fyrstu all-
mörg árin var engin kirkjuleg starf-
semi í bygðinni og höfðu þá ýmsir
hinna eldri Islendinga þann sið að
lesa húslestra eins og þeir höfðu
verið vanir að gera á íslandi. Hélt
Jón Sigurðsson uppi húslestrum um
skeið í skólahúsi, sem var skamt frá
heimili hans, og las í Helga postillu.
Jón var lesari góður, rómurinn
sterkur og skýr. Náttúrlega sóttu
nágrannarnir þessar lestrarsamkom-
ur hans. Einnig las hann stundum
til skemtunar á samkomum, sem
haldnar voru, og tók yfirleitt mik-
inn þátt í öllu andlegu félagslífi.
Nokkru eftir aldamótin voru söfnuð-
ir myndaðir innan bygðarinnar.
Gekst séra Röngvaldur Pétursson
fyrir myndun únítarasafnaðar þar
og var Jón Sigurðsson einn af helstu
stuðningsmönnum hans í því máli
og forseti safnaðarins um mörg ár.
Jón var einn þeirra manna, sem
maður aldrei gleymir eftir að hafa
kynst þeim einu sinni. Hann var
meðalmaður á hæð og nokkuð þrek-
vaxinn. Svipurinn var hreinn,
djarfmannlegur og gáfulegur. Manni
varð strax hlýtt til hans þegar mað-
ur fór að kynnast honum. Hann
var mjög hreinskilinn maður, sagði
meiningu sína blátt áfram og hik-
laust, hver sem átti hlut að máli.
Hann var ör í skapi og nokkuð
stórbrotinn og gat eflaust orðið
erfiður viðfangs, ef hann mætti mót-
spyrnu, sem honum fanst ósann-
gjörn. En jafnframt þessum skap-
lyndiseinkennum var djúp samúð
með fólki yfirleitt, rótgróin trygð
við vini og svo algerlega falslaus
drenglund, að jafnvel þeim, sem
voru honum algerlega ósammála,
gat ekki annað en verið hlýtt til
hans. Hann var bjartsýnn og talaði
aldrei um erfiðleika í því skyni að
víla eða kvarta, enda mun hann
sjaldan hafa brostið kjark. Hann
var gæddur góðlátlegri og skemti-
legri kýmnisgáfu, og oft skein
glettni úr augum hans, þegar hann
hnipti í mann og sagði eitthvað
spaugilegt. Hló hann þá oft dátt og
hjartanlega um leið.
Eg kyritist Jóni fyrst sumurin
1906 og 7. Kom eg þá oft á heimili
hans og dvaldi þar stundum dögum
saman. Flutti hann þá póst milli
þriggja póstafgreiðslustaða og fór