Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga - 01.01.1941, Blaðsíða 109
E. PAULINE JOHNSON
85
verður mildin meiri og mannúðin
innilegri.
Ástakvæði hennar eru heit og
fögur en þar eru djúpir þunglyndis-
tónar og dulrænn blær hvílir yfir
þeim öllum. Ástarhugur hennar
reikar einn sér, því svo er að sjá,
sem elskendurna skilji fjarlægðir
hvítra manna og rauðra, sem hvor-
ugt vill eða getur brúað.
Öll sín yndislegu náttúruljóð
kveður hún með heitri ást á landi
feðra sinna.
Andi hennar grúfir yfir landinu
og hlustar á alla hljóma og les ofan
í kjölinn litskrúð móður jarðar.
Hljómum og litum blandar hún
hrynjandi málsins í söngvum sín-
um. Þar heyrist gnýr stormsins,
dunur fossanna, ölduhljóð stöðu-
vatnanna og skvaldur lækjanna.
Hún túlkar hljómkviður skógarins
og heyrir hvísl gróandans. Hún
þekkir og skilur hina djúpu kyrð
í ríki náttúrunnar, þegar jafnvel
andvarinn bærir ekki á sér, og bát-
urinn hennar líður hljóðlega eftir
smaragðsgrænu vatninu innan um
sefið og vatnsliljurnar undir skugg-
um trjánna, þar sem þögnin sjálf
sefur. Frá náttúrunni kemur henni
“kraftur orða, meginkyngi og
myndagnótt.”
Pauline Johnson var talin fríð
kona og höfðingleg, prúð og látlaus
í fasi, og gjörði hún sér aldrei
manna mun. Fremur þunglynd í
skapi, vinföst og trygglynd. Hún
leitaði oft einveru og flúði glaum-
inn. Hún hafði yndi af að ferðast
ein sér, róa bátnum sínum inn á
víkur og voga, fjarri almannaleið-
um, og hún kunni íþrótt Indíánans
í því að renna honum yfir fossa,
flúðir og strengi í straumhörðum
ám. Hún tók miklu ástfóstri við
Vancouver og átti þar heima nokk-
ur síðustu ár ævi sinnar. Tæringin
hafði náð valdi yfir henni, eins og
fleirum af kynflokki hennar. Sjúk-
dómsstríð hennar var þungt síðustu
2 árin, en sálarkröftum hélt hún til
þess síðasta, eins og kvæðin, sem
hún orti með dauðann við hlið sér,
bera vitni um. Hugprúð og æðru-
laus horfir hún út yfir fjólubláa
rökkurmóðu sléttunnar, inn í rós-
litað sólsetrið. Þar fyrir handan
sér hún gullin lönd þar sem kyn-
flokkur hennar lifir áfram í heimi
hamingju og friðar. E. Pauline
Johnson andaðist 7. mars 1913, 51
árs að aldri. Þegar hún var borin
til grafar var engu líkara en að
heilar hersveitir Indíána hefðu
sprottið upp úr jörðunni, sem fylgdu
henni svo hljóðir til síðasta hvílu-
staðarins í Stanley Park. Þar
halda svo hin risavöxnu tré og öld-
ur hafsins uppi sífeldum söng yfir
gröf hennar, — sömu ódauðlegu
hljómunum og hún sló á hörpu sína.
Endur fyrir löngu hafði “hinn
mikli andi” afstýrt eyðileggingu
barna sinna. Hafði hann aftur
aumkast yfir óförum þeirra? Kon-
ungsdóttirin hafði tapað erfðafé
sínu. Snart guðinn þá sálu hennar
og gæddi hana skáldgáfunni? Veitti
hann henni aftur víðlendari ríki í
heimi andans, heimi fegurðarinnar,
heimi listarinnar? Þau ríki gátu
hvorki hvítir menn tekið né rauðir
menn látið af hendi.