Tímarit Máls og menningar - 01.06.1998, Page 62
GUNNAR KRISTJÁNSSON
litlu síðar í bókinni: „Síðastur gekk Arnæus út sjálfur úr húsinu klæddur
loðfeldi miklum gerskum og hástígvélum .. .“7
Sá maður sem stígur inn í söguna búinn stígvélum úr ensku leðri er orðinn
þreyttur á sál og líkama þegar hann horfir á bækurnar sínar brenna undir
lok sögunnar.8
Hver var Amas Amæus?
Arnas Arnæus er marglungin persóna og margræð, hvernig persóna er hann
og út á hvað gengur líf hans í íslandsklukkunni?
í skólaútgáfu af íslandsklukkunni frá 19659 er Arnas Arnæus mikill
fyrirmyndarmaður og mikill íslendingur sem virðist samt tilbúinn til að selja
landið ef svo ber undir. Hann fórnar ástinni fyrir handritin því að til þess að
eignast þau verður hann að giftast ríku ekkjunni en fórnar þar með frama á
íslandi sem hefði leitt af hjónabandi hans og lögmannsdótturinnar ljósu.
Arnas talar af miklu viti en stundum með kyrrlátu háði. Hann er öðrum
fremri, ekki hvað síst dómkirkjuprestinum sem á sér engar málsbætur fyrir
að vera eins og hann er, hann kemst t.d. aldrei að efninu „sakir guðfræðilegrar
skrúðmælgi er drottnar yfir allri hans hugsun."10 Arnas Arnæus hefur það
þó sérstaklega framyfir dómkirkjuprestinn að vera talsverður sjarmör ogþví
ekkert undarlegt að hann eigi ástir fegurstu konu þjóðarinnar vísar, Díönu
prinsessu síns tíma.
En svo eru aðrir sem fara dýpra í túlkun á sögunni og líta á hana sem
tragedíu, þrískiptan harmleik þar sem Arnas Arnæus svíkur ástmey sína ekki
einu sinni heldur þrisvar, í fyrsta bindi bókarinnar vegna handritanna, í öðru
bindi vegna réttlætisins og í því þriðja vegna framtíðar landsins sjálfs. Og
loks ofan á allt þetta er Arnas sigraður maður í anda harmleiksins. Örlaga-
valdurinn er ekki hann sjálfur heldur einhver óljós fornheiðin hugmynd um
örlög sem taka bjargvættinn mikla á sitt vald og nánast gera út af við hann.
Þetta er sjónarmið Kristjáns Karlssonar í inngangi að íslandsklukkunni
1969.11 Tragedían tengist óneitanlega lífsviðhorfi þar sem örlög ráða en
hugmyndir kristninnar um skapandi Guð sem grípur inn í gang sögunnar
er ekki til staðar né heldur trúin á von upprisunnar sem snýr jafnvel harmi
og vonleysi til nýrrar óvæntrar vonar.
En er málið svona einfalt eða öllu heldur svona flókið? Það er í það minnsta
full ástæða að mínum dómi til að spyrja upp á nýtt: Hvernig persóna er Arnas
Arnæus og um hvað snýst líf hans? Nú skal leita svara við því.
60
TMM 1998:2