Skírnir - 01.01.1967, Blaðsíða 42
40
Halldór Halldórsson
Skírnir
Saman við þetta má ekki blanda því, að alltitt hefir verið, að
unglingar hafa verið kenndir til móður, ef hún hefir þótt
meiri háttar en faðir. En þótt ég hafi aðeins dæmi þess, að
ófeðruð börn hafi verið kennd til móður, úr Þingeyjarsýslum,
fullyrði ég ekkert um það, að svo hafi ekki tíðkazt víðar.
Ýmsar fleiri ástæður hafa valdið því, að menn hafa verið
kenndir til móður, en hér skal ekki farið frekar út í þá sálma.
Um síðara atriðið, að ófeðruð börn séu við ættleiðingu
kennd til kjörföður, er óþarft að ræða. Frá því munu fáar
eða engar undantekningar, að slík börn kenni sig til kjörföður.
Þetta voru hinar löglegu leiðir. Miklu algengara mun þó,
að farið sé leiðir, sem liggja utan laga eða brjóta beinlínis
í bága við lög. Skal nú vikið að þvi, sem mér er um slíkt
kunnugt.
Algengt var á uppvaxtarárum mínum fyrir vestan, að
ófeðruð börn voru kölluð Hansson og Hansdóttir, og mér er
kunnugt um, að þetta tíðkaðist víðar en á Vestfjörðum. En
lítt hefi ég orðið var við þennan sið nú upp á síðkastið. Miklu
algengara mun það vera nú, að ófeðruð börn séu skírð tveim-
ur nöfnum. Þetta er einkum gert með tvennum hætti. Sumar
mæður láta skíra börn sín föðurnafni sem síðara nafni og
velja þá gjarna til þess föðurnafn sitt. Þannig gæti t. d. Gufi-
rún Björnsdóttir látið skíra ófeðraðan son sinn Ásgeir Björns-
son, þótt það sé að vísu í ósamræmi við nafnalögin. Samkv.
nafnal. frá 1913 var þetta löglegt, einnig ættarnafn móður (4.
gr.). Stundum munu mæðurnar jafnvel ekki hafa svo mikið við
að láta skíra síðara nafninu, heldur nefna börn sín þvi. Aðrar
mæður velja þá leið að láta skíra börn sín tveimur nöfnum,
þannig að síðara nafnið verki eins og ættarnafn. Jón heitinn
Jóhannesson sagði mér, að dæmi væiu þess úr Húnavatns-
sýslu, að nafnið Levy hefði verið notað á þennan hátt sem
síðara nafn. Ég spurði Skúla Guðmundsson alþingismann að
því, hvort hann kannaðist við þetta. Mundi hann eitt dæmi:
Eggert Levy. Bjartmar Guðmundsson alþingismaður kvað
þennan tvinefnasið algengustu leiðina sem valin væri í slík-
um tilvikum í Þingeyjarsýslum og nefndi mér dæmin Jón
Frímann og Jón Trausti.