Skírnir - 01.01.1967, Blaðsíða 124
122
Magnús Már Lárusson
Skírnir
ugasta raann, allir gestir hans, og offraði 20 gyllinum til
klaustursins, en var það myndarleg gjöf.
1 október 1508 var Lúther fluttur frá Erfurt til háskólans
i Wittenberg, þar sem regla hans réð yfir kennslustóli við
heimspekideildina, og hélt hann fyrirlestra um rökvísi og eðl-
isfræði Aristóíelesar, auk þess sem hann stundaði sjálfur nám
í guðfræði. Um veturinn 1510—11 var hann í Róm. Og í
október 1512 lauk hann doktorsprófi í guðfræði í Wittenberg
og hóf feril sinn sem kennari í þeirri grein. Hafði hann þá
notið stuðnings Jóhanns von Staupitz, yfirmanns hinna saxn-
esku Ágústinusareinsetumunka. Slíkur var fræðaferill Lúth-
ers í stuttu máli, og finnst hér ekkert, sem bendir til þess,
sem koma skal.
Lúther var efafull og leitandi sál. Að svo miklu leyti sem
skilningur hans og nám náðu til, átti hjálpræðið að vera fólg-
ið i þvi, að skilningur mannsins gæti feðmt hinar kristnu trii-
arsetningar eins og kaþólskan hafði sett þær fram. En hversu
mjög sem hann einbeitti sér að þessu marki, þá var það ofar
mætti hans. Hann gat aldrei losað sig við syndar- og sektar-
vitund, sem settist að honum og eyddi þeim friði, sem hjálp-
ræðinu ætti að fylgja eftir. Skyndilega árið 1513, fjórum ár-
um áður en hann kemur fram í sviðsljósið, fékk hann hina
byltingarkenndu hugmynd úr Biblíunni sjálfri, í Rómverja-
bréfinu 1:17: „Hinn réttláti mun lifa fyrir trú.“
Þessi er grundvöllur Lúthers. Guð er svo óendanlega mik-
ill, að maðurinn getur ekki streitzt við að skilja hann og líkj-
ast lionum. Maðurinn verður að fallast á almætti Guðs og
setja traust sitt á vilja Guðs til að bjarga honum. Þetta er
kenning, sem þá var andhverf þeirri algengu kaþólsku kenn-
ingu um verkaréttlætingu, að maðurinn yrði að framkvæma
sér meðvitandi viljaathafnir í góðgerðum og guðsþjónustu-
gjörðum til þess að frelsast, vera talinn réttlátur. Að skoðun
Lúthers nægði trúin ein, traustið eitt. Með öðrum orðum var
einstaklingurinn sjálfum sér lögmál, eingöngu bundinn af
eigin samvizku. Til þess að losna við hinar rómversku kenni-
setningar varð Lúther að losa einstaklinginn við allar kenni-
setningar.