Skírnir - 01.01.1967, Blaðsíða 52
50
Halldór Halldórsson
Skírnir
varð íslenzkur ríkisborgari, enda hét faðir hans Otto. Flestir
munu þó ekki hafa farið þessa leið.
Á Alþingi 1951 var, eins og raunar á flestum eða öllum
þingum, lagt fram Frumvarp til laga um veitingu ríkisborg-
araréttar. 1 þessu frumvarpi voru, eins og venja var til áður,
aðeins talin nöfn þeirra manna, sem Dómsmálaráðuneytið
mælti með, að fengju íslenzkt ríkisfang. Engin ákvæði voru
þar um nafnbreytingu þessa fólks, en á þinginu kom fram
(frá allsherjarnefnd) breytingartillaga á þá lund, að inn í lög-
in yrði tekið svofellt ákvæði: „Þeir, sem heita erlendum nöfn-
um, skulu þó ekki öðlast íslenzkan ríkisborgararétt með lögum
þessum, fyrr en þeir hafa fengið íslenzk nöfn samkvæmt lög-
um nr. 54 27. júní 1925.“ (Alþt. 1951 A, 824). Þessi tillaga
var samþykkt og stendur óbreytt í lögunum (Alþt. 1951 A,
1098). Sams konar ákvæði hefir staðið í lögunum um veit-
ingu ríkisborgararéttar síðan. Björn Ólafsson, þá menntamála-
ráðherra, vék fyrstur að þessu á þinginu 1951 (sbr. Alþt. 1951
B, 749—50), að slikt ákvæði yrði sett inn í lögin. Þetta laga-
ákvæði sætti 1951 og hefir siðan sætt nokkurri andspyrnu
utan þings og innan, og hafa ýmsir haldið því fram, að nægi-
legt væri, að hin erlendu nöfn féllu niður í öðrum og þriðja
lið. Gagnrýnin beindist og hefir beinzt einkum að því, að
ákvæðið skuli neyða fólk til nafnbreytinga. Telja þessir gagn-
rýnendur, að nægilegt væri, að börn eða barnabörn þessa
fólks tæki upp íslenzk nöfn.
Hið næsta, sem gerðist í málinu, var það, að hinn 1. marz
1955 fól þáverandi dóms- og menntamálaráðherra, Bjarni
Benediktsson, nú forsætisráðherra, þeim Alexander Jóhannes-
syni prófessor, Jónatan Hallvarðssyni hæstaréttardómara, Þor-
steini Þorsteinssyni fyrrverandi hagstofustjóra og Þórði Eyj-
ólfssyni hæstaréttardómara að endurskoða lög um mannanöfn,
nr. 54 frá 27. júní 1925 og semja nýtt frumvarp til laga um
ættarnöfn. Formaður nefndarinnar var dr. Þórður Eyjólfsson.
Nefndin brá skjótt við og samdi frumvarp, sem lagt var
fyrir Alþingi 1955. Fylgir frumvarpinu allrækileg greinar-
gerð, og kemur þar i ljós, að nefndarmenn hafa síður en svo
verið sammála um einstök atriði. f 1.—6. grein frumvarpsins