Skírnir - 01.01.1967, Blaðsíða 110
LADISLAV HEGER:
ÍSLENZK FRÆÐI í TJEKKÓSLÓVAKÍU.
Margt er líkt með sögu íslendinga og Tjekka, sérstaklega
með langvinnri baráttu hvorra tveggja fyrir sjálfsforræði, en
einnig er ýmislegt svipað í menningar- og bókmenntasögu
beggja þjóða. Snilldarlegt kvæði Þórarins loftungu um Ólaf
helga minnir t. d. á heilagan Venceslaus, verndardýrling lands
vors og þjóðar. Á 16. öld segir Peder Palladius, að sérhver
íslendingur, karl sem kona, lesi og skrifi móðurmál sitt. Það
minnir oss á það, sem Aeneas Silvius, síðar Píus páfi II, sagði
um tjekkneska hússíta, að jafnvel hin litilfjörlegasta kona
meðal þeirra væri betur að sér í Heilagri ritningu en margur
ítalskur klerkur. 17. öldin var báðum þjóðum þung í skauti,
en báðar áttu þó sín mikilmenni á þeirri öld, íslendingar
sálmaskáldið séra Hallgrím Pétursson, en með Tjekkum var
þá uppi Joh. Amos Comenius, sem bæði var mikilhæfur
menntafrömuður og merkur heimspekingur og skáld. Líking-
arrit hans um völundarhúsið er skrifað af mikilli list og
á brýnt erindi til vor enn. Maður nokkur fer um með rauð
gleraugu, sem húsbóndi hans hefir sett á hann, en mað-
urinn sér niður undan gleraugunum og getur virt fyrir sér
veröldina eins og hún er. I þessu sambandi mætti e. t. v.
minna á, að sama frumhugsun er nýtt og úr henni unnið
í tjekknesku kvikmyndinni „Einu sinni kom köttur", sem
vakið hefir mikla athygli. — Og hliðstæður má einnig finna
frá síðustu tímum. Skammt frá Praha er bærinn Lidice, sem
nasistar ætluðu að jafna við jörðu. Prestinum Semberka var
boðin útganga, ef hann vildi forða sér. En hann vildi ekki
þiggja, kaus heldur að láta lífið með sóknarbörnum sínum
eins og Njáll forðum með sonum sínum.