Tímarit Máls og menningar - 01.11.2012, Blaðsíða 61
A ð l e s a T í m a n n o g va t n i ð I I
TMM 2012 · 4 61
Steins svo augljóslega villandi að mínum dómi að þær eru að mörgu leyti
sambærilegar við orð Pauls Valéry: „Ljóð mín hafa þá merkingu sem menn
leggja í þau“.35 Þau orð eru þó varla heppilegt leiðarhnoða við lestur Tímans
og vatnsins og til að nálgast merkingarlegan kjarna flokksins, ekki fremur en
sú sannfæring að ljóðin séu merkingarlaus.
Niðurstaða mín um samsetningu Tímans og vatnsins er þá í skemmstu
máli sú, eins og ég hef rakið hér að framan, að í honum séu þrír meginþættir
sem að umfangi raðast svo: heterokosmos, ástartregi, testamenti skálds. Og á
því leikur ekki vafi í mínum huga að meginþemun tvö í ljóðaflokknum voru
Steini hjartansmál þó svo hann kysi víða að yrkja fólgið. Öfugt við það sem
hann lét í veðri vaka í samtölum kvaddi hann þau af ást og virðingu.
***
Ég hef nú um hríð lýst mínum skilningi á Tímanum og vatninu. En fleiri hafa
gert sig seka um þá ‚óskammfeilni‘ að túlka flokkinn að hluta eða í heild.
Ekki verður tekin afstaða hér til þeirra túlkana allra enda er minni ekki
ætlað að leysa þær endanlega af hólmi heldur einungis að stilla sér upp við
hlið þeirra. Það er svo annarra að vega þær og meta. En einni spurningu má
varpa fram hér að lokum. Hvað þýðir þetta orð – eilífðin – sem kemur fyrir
þrisvar í Tímanum og vatninu? Hvað merkir sú mynd að skáldið hafi búið sér
hvílu í hálfluktu auga eilífðarinnar? Hver er hugsunin þar að baki? – Þetta
eru lykilspurningar og svörin við þeim virðast ráða nokkru um skilning
manna á bálkinum. Er hann trúarljóð eins og séra Gunnar Kristjánsson hall-
ast að,36 eða vísar orðið til framhaldslífs skálds – sem er framhaldslíf ljóða
þess – eins og ég tel og leitast við að færa rök að í mínum lestri? Um þetta
þema – ódauðleikaþemað sem ég kalla svo – hafa fyrri könnuðir Tímans og
vatnsins naumast fjallað svo heitið geti þó Peter Carleton drepi reyndar á
það.
Orðið kemur fyrir þrisvar í flokknum:
(12. ljóð) Bláfextar hugsanir mælanda hverfa inn um bakdyr eilífðarinnar
(21. ljóð) Mælandi hefur búið sér hvílu í hálfluktu auga eilífðarinnar
(21. ljóð) Eilífðin horfir úr auga sínu óræðum draumi mælanda
Kristján Karlsson skrifaði um trúarskáldið Stein Steinar, sem hann kallaði
svo, í inngangi sínum að Kvæðasafni Steins 1964 en er þá að vísu ekki að
tala um Tímann og vatnið sérstaklega. „Kvæði [Steins] eru trúarljóð – með
neikvæðu forteikni. Trúaður eða trúlaus er hann í flokki hinna mestu trúar-
skálda vorra.“37 Mörgum lesendum Steins kom þessi niðurstaða Kristjáns
verulega á óvart.
Ýmsir aðrir hafa skrifað um glímu Steins við trú og trúleysi, um efahyggju
hans og tilvistarkreppu, en þá sjaldnast í sambandi við Tímann og vatnið.