Tímarit Máls og menningar - 01.11.2012, Blaðsíða 66
66 TMM 2012 · 4
Sverrir Norland
Erfidrykkjan
Á hverjum morgni var það sama sagan: ég bar út Moggann klakklaust til 89
áskrifenda og tvísteig svo með hjartað í buxunum við garðhliðið hjá þeim
nítugasta – „Tómas Tómasson myndlistarmaður“ stóð á áskriftarlistanum –
og starði á grænt húsið með þessu skrítna, eldrauða þaki.
„Jæja, Steinar Ólafsen,“ muldraði ég fyrir munni mér og taldi svo upp að
heillatölunni minni („… ellefu, tólf, þrettán!“) áður en ég tók á rás inn um
hliðið.
Njólinn og illgresið mynduðu ískyggilegan frumskóg sem náði mér
upp að hálsi. Ég þurfti að höggva mér leið með Morgunblaðinu eins og
ævintýrahetja sem ryður sér leið með sveðju í átt að markmiðum sínum. Ég
vissi að ég hefði ekki nema tíu sekúndur, í mesta lagi tuttugu, til að koma
blaðinu í höfn: inn um lúguna.
En þetta var engin venjuleg lúga. Hún var bæði lítil og stíf og stirð og þver,
hlemmurinn níðþungur, og alls ekki fyrir neina aukvisa að eiga við hana.
Til allrar hamingju var ég þaulreyndur blaðburðardrengur. Ég hafði
brotið blaðið saman af listfengi, svo að það einmitt rétt slapp inn um lúguna,
en þá mátti líka engu skeika.
Ég endasentist upp tröppurnar, skaut blaðinu hárfínt beint í mark (níu sek-
úndur!) og spretti aftur að hliðinu.
Einmitt á þeirri stundu heyrði ég dýrið rumska af svefni sínum, síðan
þungt fótatakið á hælum mér …
Másandi og blásandi andardráttinn …
Eins og fimleikakappi stakk ég mér kollhnís út um hliðið; í sama vetfangi
heyrði ég hvernig strekktist á hálskeðjunni – og ógnþrungið gremjuöskrið!
Ég þreif blaðburðarpokann upp af jörðinni og hraðaði mér heim á leið,
þegar tekinn að kvíða næsta morgni.
***
Undir öllum venjulegum kringumstæðum hefði ég sagt upp starfinu, án
þess að hika. Líf mitt og limir voru mér meira virði en mánaðarlegur launa-
seðill frá útgefendum Morgunblaðsins. En ég var að safna mér fyrir úkúlele,
og það engu skrapatóli handa einhverju blávatni: það var Mahogany Style